Elísa Björk er ung en hún býr yfir þokkalegri reynslu og gæti leyst mikilvægt hlutverk á næsta sumri,
Elísa Björk Hjaltadóttir er búin að semja við Fylki um að framlengja samning sinn við félagið um eitt ár, eða út næstu leiktíð.
Elísa Björk er fædd 2007 og uppalin hjá Fylki. Hún hefur verið í lykilhlutverki upp yngri flokka félagsins og er með 37 skráða KSÍ-leiki að baki fyrir meistaraflokk þrátt fyrir ungan aldur.
Elísa var aðeins á fimmtánda aldursári þegar hún spilaði fyrstu leiki sína fyrir meistaraflokk Fylkis í Lengjudeildinni árið 2022. Sumarið 2024 kom hún svo við sögu í 10 leikjum með Fylki í Bestu deildinni þegar Árbæingar féllu.
Hún kom ekkert við sögu er Fylkir féll úr Lengjudeildinni í ár en fékk að spreyta sig í tveimur leikjum í Mjólkurbikarnum. Fylkir leikur því í 2. deild á næsta ári eftir tvö föll í röð.
„Við bindum miklar vonir við Elísu á komandi keppnistímabili og hlökkum til að sjá hana áfram spila í appelsínugulu," segir meðal annars í tilkynningu frá Fylki.
Athugasemdir




