Hvert fer Salah? - Wharton vill Meistaradeild - Ederson til Liverpool eða Barca - Arsenal og Real berjast um Yildiz
   mán 08. desember 2025 19:48
Ívan Guðjón Baldursson
Jonatan Ingi hjá Val næstu fjögur árin (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Valur
Jónatan Ingi Jónsson er búinn að framlengja samning sinn við Val um tvö ár, sem þýðir að hann gildir nú út tímabilið 2029.

Tíðindin koma nokkuð á óvart en hann hefur verið orðaður við bæði KR og Víking síðustu vikur.

Jónatan Ingi er 26 ára gamall og meðal bestu leikmanna Bestu deildarinnar þar sem hann hefur undanfarin ár verið iðinn við að búa til og skora mörk.

Jónatan, sem á tvo A-landsleiki að baki, ólst upp hjá FH og hélt ungur til AZ Alkmaar. Hann lék með meistaraflokki FH og Sogndal í Noregi áður en hann skipti yfir til Vals í fyrra.

Hann verður í stóru leiðtogahlutverki hjá Val næstu árin og segist líða vel í Hlíðunum.

„Mér líður mjög vel með það að hafa framlengt við Val. Mér hefur liðið vel á Hlíðarenda og stefna nýrrar stjórnar knattspyrnudeildar er skýr og metnaðarfull. Ég finn að nýtt þjálfarateymi er að koma með eitthvað ferskt að borðinu og það eru jákvæðir hlutir í loftinu," sagði Jónatan við undirskriftina.

„Ég var alltaf jákvæður fyrir því að framlengja, þrátt fyrir það sem kann að hafa verið skrifað í fjölmiðlum. Þetta er stór dagur fyrir mig og ég hlakka til þess að vera lykilmaður hér að Hlíðarenda næstu árin.“

Hermann Hreiðarsson nýr þjálfari Vals er gríðarlega ánægður með undirskriftina og talar um Jónatan sem einn af allra mikilvægustu leikmönnum liðsins.

„Jónatan er einn af okkar allra mikilvægustu leikmönnum og það sést í öllum lykiltölum leiksins hversu miklu máli hann skiptir. Hann vinnur leiki fyrir okkur með gæðum sínum, heldur uppi hraða og skapar stöðugt hættu. Það er geggjað að við séum að tryggja hann til lengri tíma — þetta eru skýr skilaboð um metnað Vals,“ sagði Hemmi.


Athugasemdir
banner