Hvert fer Salah? - Wharton vill Meistaradeild - Ederson til Liverpool eða Barca - Arsenal og Real berjast um Yildiz
   mán 08. desember 2025 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Mættur í Bestu og tekur annað tímabil sem spilandi styrktarþjálfari - „Færi þeim bestu þakkir fyrir tækifærið"
'Eftir tímabilið hugsaði ég alveg út í þann möguleika'
'Eftir tímabilið hugsaði ég alveg út í þann möguleika'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Marki fagnað í úrslitaleik umspilsins.
Marki fagnað í úrslitaleik umspilsins.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Ég er hrikalega stoltur af liðinu hvernig við brugðumst við þegar mikið var undir í lokin'
'Ég er hrikalega stoltur af liðinu hvernig við brugðumst við þegar mikið var undir í lokin'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Nei, það var í raun ekki flókin ákvörðun, það var áhugi frá öðrum félögum og ég fór í viðræður við eitt annað félag sem hefði getað verið spennandi verkefni en ég er mjög sáttur að við náðum saman í Keflavík," segir Frans Elvarsson, fyrirliði Keflavíkur, sem ákvað að framlengja samning sinn við félagið fyrr í vetur. Hann var með lausan samning eftir fimmtán tímabil í Keflavík.

Hann er 35 ára miðjumaður sem uppalinn er hjá Sindra en kom til Keflavíkur frá grönnunum í Njarðvík fyrir einum og hálfum áratug síðan. Hann var spurður hvort hann hefði hugsað um að kalla þetta gott eftir að hafa hjálpað Keflavík aftur upp í Bestu deildina í sumar.

„Ég var ekkert búinn að leiða hugann að því að ætla að hætta, en allt í einu var maður 35 ára og samningslaus og eftir tímabilið hugsaði ég alveg út í þann möguleika. Ég átti góð samtöl við eldri leikmenn sem eru hættir og á hvaða forsendum þeir höfðu hætt og flestir sögðu að þeim væri bara orðið illt í líkamanum undir lokin. Ég hugsa alltaf um að á meðan ég get eitthvað, þetta sé ennþá skemmtilegt og ég er ekki alltaf meiddur þá langar mig að halda áfram. Svo á ég sem betur fer góða konu sem styður mig í þessu, en hún hefur tekið auka álag fyrir okkur að vera heima seinnipartinn með litla leikskólastúlku."

Keflavík var í smá brasi á tímabilinu og gekk illa að ná stöðugleika í spilamennsku og úrslit. Liðið tryggði sér sæti í umspilinu í lokaumferðinni, sló út Njarðvík í tveggja leikja einvígi og vann svo HK sannfærandi í úrslitaleiknum.

Hvernig fannst þér tímabilið 2025, ertu sáttur með spilamennsku og gengi Keflavíkur?

„Mér fannst tímabilið í deildinni í raun frekar lélegt, sýndum ekki nógu stöðuga frammistöðu í gegnum mótið. En ég er hrikalega stoltur af liðinu hvernig við brugðumst við þegar mikið var undir í lokin þar sem við áttum okkar bestu leiki og síðan kannski okkar besta leik í úrslitaleik umspilsins."

Aftur mættur í Bestu, spilaði það inn í þína ákvörðun?

„Já, algjörlega. Efsta deild er allt önnur skepna og mig langaði að vera partur af næsta kafla hjá Keflavík og ég hlakka til að sjá hvernig við bregðumst við því að mæta bestu liðunum á Íslandi."

Þú sinnir styrktarþjálfun meðfram því að spila, hefur þú verið að læra það?

„Ég er búinn með BSc gráðu í íþróttafræðum í Háskólanum í Reykjavík og er í meistaranáminu þar núna, en ég hef alveg síðan ég var unglingur haft brennandi áhuga á lyftingum og svo síðar hvernig lyftingar gátu bætt frammistöðu í fótbolta og komið í veg fyrir meiðsli. Ég grúska í vísindagreinum um styrk- og kraftþjálfun daglega og finnst geðveikt að geta komið mínum hugmyndum áleiðis."

„Ég sagði þjálfurunum fyrir tímabilið í fyrra að ég hefði áhuga á að koma inn sem styrkþjálfari og þeim leist vel á það og færi ég þjálfurum og stjórnendum bestu þakkir fyrir tækifærið. Það gekk vel síðastliðið tímabil, vorum með fáa í einhverjum lengri tíma meiðslum og mig langar að þróa mig áfram á þessum vettvangi, komast betur inn í hlaupagögn og aðferðir til að vinna úr þeim gögnum,"
segir Frans sem er leikjahæsti leikmaður í sögu Keflavíkur.
Athugasemdir
banner