Xabi Alonso gaf kost á sér í viðtal eftir óvænt tap Real Madrid á heimavelli gegn Celta Vigo í gærkvöldi.
Þjálfarinn var svekktur með ýmis atvik úr leiknum en hrósaði sínum mönnum þó fyrir viðbrögðin eftir að hafa lent leikmanni undir.
„Staðreyndin er einföld, við vorum betra liðið eftir að við lentum manni undir og spiluðum með tíu leikmenn á vellinum frekar en ellefu. Þeir sem voru eftir á vellinum áttuðu sig á því að þeir þurftu að hlaupa og vinna fyrir þessu, þá fyrst byrjaði frammistaðan að skána," sagði Alonso við myndavélarnar.
„Mér líður eins og ég sé nægilega sterkur til að snúa þessu slæma gengi við, við erum á réttri braut. Strákarnir eru hungraðir og við getum enn snúið þessu við, það er nóg eftir af tímabilinu."
Real Madrid hefur aðeins unnið tvo leiki af síðustu sjö í öllum keppnum og situr í öðru sæti spænsku deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Barcelona. Fjölmiðlar á Spáni hafa verið að ýja að því að þjálfarastarf Alonso gæti verið í hættu ef honum tekst ekki að laga úrslitin.
„Ég er ekki að hugsa um orðróma sem segja að ég gæti verið rekinn, ég er bara að hugsa um næsta leik. Real Madrid gegn Manchester City. Ég og allir leikmenn liðsins erum bara að hugsa um næsta leik, ekkert annað."
Ungstirnið Franco Mastantuono verður ekki með í næstu leikjum vegna meiðsla.
Athugasemdir


