Þór/KA tapaði fallbaráttuslag gegn Aftureldingu á Akureyri í Bestu deild kvenna í kvöld. Þegar sex leikir eru eftir er liðið aðeins einu stigi frá fallsæti.
Lestu um leikinn: Þór/KA 0 - 1 Afturelding
Afturelding skoraði strax eftir 30 sekúndur en Þór/KA var mun betri aðilinn allan fyrri hálfleikinn. Perry McLachlan annar þjálfara Þórs/KA var að vonum svekktur að ná ekki að nýta það.
„Þær [Afturelding] eiga hrós skilið, þær vörðust eins og þær ættu lífið að leysa. Frammistaðan okkar var góð, bjuggum til helling af færum en náðum ekki að skora. Fengum ekki nógu mörg opin færi, þær vörðust með allar fyrir aftan boltann, við stjórnuðum leiknum og áttum meira skilið."
Perry var ánægður með tíman sem þær nýttu í EM hléinu en Þór/KA fór í æfingaferð til Tenerife.
„Þessi úrslit eftir hléið, fyrst gegn Val og svo þessi er blaut tuska í andlitið, ekki það sem við bjuggumst við og vonuðumst eftir. Stelpurnar gerðu vel í dag og áttu ekki skilið að tapa en svona er fótboltinn, hann er grimmur," sagði Perry.
„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum í fallbaráttu, við höfum verk að vinna og höfum sex leiki til að klára það."