Arne Slot þjálfari Liverpool svaraði öllum þeim spurningum sem honum bárust á fréttamannafundi í gærkvöldi.
Fréttamannafundurinn var haldinn fyrir stórleik Liverpool á útivelli gegn Inter í Meistaradeild Evrópu en Mohamed Salah er meðal leikmanna sem ferðast ekki með til Ítalíu.
Salah fór í viðtal eftir jafntefli gegn Leeds í ensku úrvalsdeildinni um helgina og lét ýmsar skoðanir flakka þar. Hann virtist mjög tilfinningaríkur og sakaði Liverpool meðal annars um að nota sig sem blóraböggul fyrir slöku gengi með því að færa hann á varamannabekkinn.
„Mér líður ekki eins og hann sé að gera lítið úr mínu valdi sem þjálfara, alls ekki. Þetta snýst ekki um mig og mínar tilfinningar heldur um liðið og klúbbinn. Við erum á slæmum stað þessa stundina og þurfum að vinna hörðum höndum til að laga það," sagði Slot.
„Það er erfitt að sjá fólk þjást útaf því að okkur gengur illa. Ég tek eftir að þetta slæma gengi er að hafa neikvæð áhrif á þjálfarateymið og fleiri. Ég er þjálfarinn hérna og sé um að velja liðið en ég skipti ekki höfuðmáli, það er liðið og liðsheildin. Ég get verið mikilvægur upp að vissu marki en það er ekki ég sem fer inná völlinn í takkaskóm."
Slot segist ekki vera viss um að hann skilji hvað Salah hafi verið að meina þegar hann sagði að sér hafi verið hent undir rútuna í tilraun til að búa til blóraböggul fyrir slöku gengi.
„Ég skil ekki nákvæmlega hvað hann meinar þegar hann talar um að sér hafi verið hent undir rútuna, ég veit ekki hvern hann er að ásaka. Við erum ekki búnir að ræða um þetta atvik. Ég er yfirleitt rólegur og kurteis en það þýðir ekki að ég sé veikburða.
„Ég vil ekki tjá mig of mikið um þetta mál fyrr en ég veit betur hvað þetta snýst um. Ég get bara giskað á þessum tímapunkti. Ef hann gerði þetta bara útaf því að hann var ekki í byrjunarliðinu í nokkrum leikjum, ætli lausnin sé þá ekki að leyfa honum að spila hvern einasta leik, sama hvað? En kannski er þetta ekki það sem hann meinti með orðum sínum. Kannski er eitthvað annað þarna á bakvið. Ég bara veit það ekki.
„Kannski er eitthvað annað í gangi sem lætur hann hugsa og líða á þennan hátt, en þegar öllu er á botninn hvolft þá hefur hann fullan rétt á sínum skoðunum. Vandamálið er að hann fór með þetta mál í fjölmiðla í staðinn fyrir að tala beint við okkur og þess vegna þurfum við að refsa honum."
Salah tjáði sig um brostið samband á milli sín og Slot þjálfara en samkvæmt Slot þá er það einhliða tilfinning. Salah nefndi að samband sitt við Slot hafði verið mjög gott á síðustu leiktíð en núna líður egypska kónginum eins og þjálfarinn vilji lítið með sig hafa. Salah talaði meðal annars um að Slot væri orðinn kaldari og byrjaður að hunsa sig meira, eitthvað sem Slot kannast ekki við.
„Við töluðum saman tvisvar á tveimur dögum fyrir Leeds leikinn. Það þýðir ekki að við vorum alltaf sammála, en við töluðum saman. Hann mætti á æfingu í dag (í gær) og ég lét hann vita að hann kæmi ekki með í ferðalagið til Ítalíu útaf hegðun sinni í síðasta leik. Við höfðum engan tíma til að ræða málin betur því við vorum önnum kafnir í undirbúningi fyrir stórleikinn."
Athugasemdir



