Arne Slot, stjóri Liverpool, fékk varla að tala um frammistöðu Liverpool í 1-0 sigrinum á Inter, enda snerust flestar spurningar um Mohamed Salah og viðtal hans eftir leikinn gegn Leeds um helgina.
Salah var ekki í hópnum hjá Liverpool gegn Inter, en félagið vildi þar senda frá sér yfirlýsingu að enginn leikmaður er stærri en félagið.
Egyptinn gagnrýndi Slot og Liverpool á versta kafla Liverpool í mörg ár og var alveg ljóst að það yrðu einhverjar afleiðingar fyrir ummælin sem hann lét falla.
Slot þurfti að halda áfram að svara spurningum um Salah í kvöld og er hann vel meðvitaður að það verði ekki spurt um neitt annað þegar Liverpool mætir Brighton um helgina.
„Ég aðskil þessa hluti. Það var mjög erfitt fyrir leikmennina að fá á sig mark gegn Leeds á síðustu mínútu leiksins. Við fáum varla færi á okkur og því erfitt að taka því. Þetta var nú þegar tilfinningaríkt og sömuleiðis það sem gerðist eftir leikinn. Þrettán leikmenn voru leikfærir sem höfðu reynslu úr ensku úrvalsdeildinni eða Meistaradeildinni. Við fáum á okkur mark og þá láta menn ýmislegt flakka. Yfirleitt hefur það áhrif á leikmenn líka því hann hefur verið svo áhrifamikill fyrir félagið og leikmennina þannig það er aldrei notaleg tilfinning þegar eitthvað kemur fyrir liðsfélaga þeirra.“
„Þetta á að snúast um það sem við gerðum hér. Ég skil það fullkomlega að allar spurningarnar á blaðamannafundinum á föstudag munu snúast um Mo.“
„Allir gera mistök í lífínu en veit leikmaðurinn að hann gerði mistök? Á hann að eiga frumkvæðið eða er það í mínum verkahring? Það er önnur spurning. Ibou Konate hefur átt mörg erfið augnablik undanfarið, en hann var stórkostlegur í kvöld.“
„Eftir leikinn gegn PSV og Forest, þar sem við fengum á okkur sjö mörk í tveimur leikjum, þá var kominn tími til þess að fá á okkur færri mörk og það er það sem við gerðum gegn West Ham. Síðan spilum við gegn Sunderland og fyrsta færið þeirra kom á 86. mínútu. Markið þeirra var ekki einu sinni færi og síðan kom leikurinn gegn Leeds.“
Slot var annars ánægður með karakterinn og vonar að það verði hægt að byggja ofan á þessi úrslit.
„Í kvöld sýndum við karakter í síðari hálfleiknum og breyttum leikkerfinu aðeins.
„Við getum aðallega bara unnið með myndbönd en síðan fáum við vikufrí eftir laugardaginn og spilum svo næst við Tottenham. Við fáum aðeins meiri tíma á æfingasvæðinu, en það er ekki mjög algengt í fótbolta að þú spilir fjóra leiki á tíu dögum. Við höfum þurft að eiga við það,“ sagði Slot.
Athugasemdir


