Liverpool og City fylgjast með Diomande - Disasi á förum - Panichelli til Englands - Newcastle gæti fengið einn ódýrt
   þri 09. desember 2025 22:58
Brynjar Ingi Erluson
Van Dijk: Ekki mitt að segja hvort einhver þurfi að biðjast afsökunar
Virgil van Dijk og Mo Salah á góðri stundu
Virgil van Dijk og Mo Salah á góðri stundu
Mynd: EPA
Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, ræddi aðeins um Mohamed Salah og allt fíaskóið sem hefur átt sér stað í kringum félagið síðustu daga, en vildi helst af öllu einblína á sigur liðsins á Inter í Meistaradeildinni í kvöld.

Van Dijk og Salah hafa þekkst í sjö ár eða síðan Hollendingurinn gekk í raðir Liverpool frá Southampton árið 2018.

Þeir hafa unnið allt saman og eru góðir félagar, en hann var spurður aðeins út í viðtalið sem hefur farið eins og eldur um sinu á internetinu síðustu daga þar sem Salah gagnrýndi Arne Slot og félagið.

Salah var frystur úr hópnum fyrir leikinn gegn Inter, en margir eru á því máli að hann hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Liverpool.

„Þetta er erfitt en allt liðið er í erfiðri stöðu. Það er eitthvað í gangi á milli Mo og félagsins og hann er ekki hér í dag. Það er raunveruleikinn, en það hefur ekkert breyst hjá okkur hvað varðar einbeitingu og fyrirætlanir okkar.“

„Það er ekki mitt að segja hvort einhver þurfi að biðjast afsökunar. Þetta var hann að kasta tilfinningum sínum út í kosmósinn og eitthvað sem félagið þarf að eiga við, en auðvitað þarf ég líka að eiga við þetta. Einbeitingin var til staðar og þar hefur ekkert breyst. Hann hefur æft mjög vel.“

„Raunveruleikinn er líka sá að Mo er á leið til Afríku á næstunni. Ég hef þekkt hann í ótrúlega langan tíma. Við erum góðir vinir og höfum farið í gegnum hæðir og lægðir saman. Við tölum saman en það fer ekki lengra, eins og það á að vera. Við verðum að vera undirbúnir og mæta þessum utanaðkomandi hávaða.“

„Það mikilvægasta er að tala saman. Við verðum að ná endurheimt og mæta síðan í leikinn gegn Brighton. Við verðum að fagna góðu augnablikunum og njóta. Hver er annars tilgangurinn í því að vinna? Við verðum hér yfir nótt, sofum vel og borðum vel, og reynum að vera ekki of hátt uppi eða of lágt niðri,“
sagði fyrirliðinn í lok viðtals.
Athugasemdir
banner