
Halldór Jón Sigurðsson, Donni, var í gær tilkynntur sem nýr þjálfari U19 ára landsliðs kvenna.
Í aðdraganda tilkynningar hafði heyrst af því að Donni hefði möguleika á öðrum störfum. Hann ræddi við Fótbolta.net í gær.
Í aðdraganda tilkynningar hafði heyrst af því að Donni hefði möguleika á öðrum störfum. Hann ræddi við Fótbolta.net í gær.
Varstu nálægt því að taka eitthvað annað starf að þér?
„Já, ég var mjög nálægt því að taka annað starf að mér, fékk þónokkuð af símtölum og var kominn mjög langt með annað félag og var mjög spenntur fyrir því og mjög stoltur af því að það væri áhugi á mér þar."
„Það var mjög spennandi verkefni klárlega, og eitthvað sem ég vonast til að gera seinna á mínum ferli ef þannig ber undir," segir Donni.
Donni vildi ekki staðfesta það en starfið sem hann er að tala um er samkvæmt heimildum Fótbolta.net þjálfarastaðan hjá Breiðabliki en Íslandsmeistararnir munu kveðja Nik Chamberlain í lok móts en hann er að fara taka við Kristianstad.
Donni ræddi einmitt líka við sænska félagið Kristianstad í haust.
„Ég var kominn langt með að taka að mér starfið hjá Kristianstad, var búinn að fara út til að skoða aðstæður en síðan bara gekk það ekki upp, öll spilin komu ekki saman."
„Úr varð að ég fór ekki þangað, en kannski opnar það dyr seinna, það blundar klárlega í mér að þjálfa erlendis á einhverjum tímapunkti og Kristianstad hefði klárlega verið frábært félag til að byrja þann feril, en það verður að bíða betri tíma," segir Donni.
Síðasti hluti viðtalsins, þar sem rætt var um Tindastól, verður birtur seinna í dag.
Athugasemdir