Erkifjendur á eftir Branthwaite - Atlético á eftir Greenwood - Tekur Potter við Man Utd?
   sun 28. september 2025 11:10
Brynjar Ingi Erluson
Nik Chamberlain tekur við Kristianstad eftir tímabilið (Staðfest)
Kvenaboltinn
Mynd: Kristianstad
Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, mun taka við kvennaliði Kristianstad eftir þetta tímabil en þetta kemur fram í tilkynningu frá bæði Breiðablik og Kristianstad í dag.

Chamberlain varð Íslandsmeistari með Blikum á síðasta ári og er nú einum sigri frá því að vinna tvöfalt á þessari leiktíð.

Fótbolti.net greindi frá því á dögunum að Nike væri að taka við Kristianstad í Svíþjóð og hafa bæði félög staðfest þau tíðindi, en hann mun klára tímabilið með Blikum áður en hann heldur til Svíþjóðar.

„Að loknu yfirstandi leiktímabili mun Nik Chamberlain láta af störfum þjálfara meistaraflokks kvenna hjá Breiðabliki. Á nýju ári mun Nik taka við starfi aðalþjálfara kvennaliðs Kristianstads DFF í sænsku úrvalsdeildinni.

Nik hefur stýrt liði Breiðabliks undanfarin tvö keppnistímabil. Undir hans stjórn varð Breiðablik Íslandsmeistari árið 2024 eftir eftirminnilegan úrslitaleik við Val á Hlíðarenda. Í ár stýrði hann svo liðinu til bikarmeistaratitils eftir sigur á FH í úrslitaleik og þá er einungis dagaspursmál hvenær Íslandsmeistaratitillinn verður aftur tryggður. Það er því ljóst að Nik mun skilja eftir sig stórt skarð, sem verður vandfyllt.

Um leið og við þökkum Nik kærlega fyrir hans ómetanlega framlag, óskum við honum velfarnaðar á nýjum vettvang,“
segir í yfirlýsingu Blika.

Spennandi ráðning hjá Kristianstad en þær Alexandra Jóhannsdóttir, Elísa Lana Sigurjónsdóttir og Guðný Árnadóttir leika allar með félaginu.

Kristianstad er í 5. sæti deildarinnar með 34 stig eftir tuttugu leiki spilaða.
Athugasemdir