Heimild: Íslendingavaktin
Viktor Bjarki Daðason, framherji FCK í Danmörku, er í sigtinu hjá mörgum félögum víðs vegar um Evrópu en Íslendingavaktin greinir frá þessu og vitnar þar í danska miðilinn Campo.
Þessi 17 ára gamli Framari skaust fram á sjónarsviðið með Fram árið 2023. Þá lék hann aðeins nokkrar mínútur en fékk stærra hlutverk á síðasta ári og var síðan seldur til FCK í byrjun 2025.
Hann hefur unnið sig hratt upp metorðastigann hjá FCK og er í dag fastamaður í hópnum hjá aðalliðinu.
Viktor lagði upp í fyrsta deildarleik sínum með FCK og fylgdi því á eftir með því að skora mark gegn Borussia Dortmund í Meistaradeildinni sem gerði hann að þriðja yngsta markaskorara í sögu keppninnar.
Framherjinn kórónaði frábæran októbermánuð með marki og stoðsendingu í bikarleik gegn Hobro.
Campo segir frá því að mörg félög séu með auga á Viktori, en fjölmargir njósnarar mættu til að horfa á hann í 2-0 tapinu gegn Vejle í gær.
Dortmund, Mönchengladbach, Rennes og Real Sociedad voru öll með útsendara á leiknum.
Viktor Bjarki er í U19 ára landsliðinu sem mætir Finnlandi, Rúmeníu og Andorra í undankeppni Evrópumótsins í þessari viku.
Athugasemdir



