Arsenal á eftir miðjumanni Elche - Roma vill fá Zirkzee lánaðan - City gæti blandað sér í baráttuna um Semenyo
   mið 05. nóvember 2025 23:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Viktor Bjarki: Það er draumur allra krakka á Íslandi
'Ég er örugglega búinn að horfa á markið 7-10 sinnum'
'Ég er örugglega búinn að horfa á markið 7-10 sinnum'
Mynd: EPA
'Þetta var samt frábær upplifun að spila á Tottenham vellinum'
'Þetta var samt frábær upplifun að spila á Tottenham vellinum'
Mynd: EPA
'Hann getur kennt mér mikið inn á þetta líf'
'Hann getur kennt mér mikið inn á þetta líf'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Berst um mínútur í liði FCK við Andreas Cornelius.
Berst um mínútur í liði FCK við Andreas Cornelius.
Mynd: EPA
Og Youssoufa Moukoko.
Og Youssoufa Moukoko.
Mynd: EPA
Viktor Bjarki skrifaði undir nýjan samning við FCK fyrir um mánuði síðan.
Viktor Bjarki skrifaði undir nýjan samning við FCK fyrir um mánuði síðan.
Mynd: FCK
Hann var þá færður upp í aðalliðið.
Hann var þá færður upp í aðalliðið.
Mynd: FCK
'Tilfinningin er rosaleg ennþá, en ég er svolítið búinn að 'settla' hana.'
'Tilfinningin er rosaleg ennþá, en ég er svolítið búinn að 'settla' hana.'
Mynd: EPA
Fagnaði marki gegn Val í Bestu deildinni fyrir einu og hálfu ári síðan.
Fagnaði marki gegn Val í Bestu deildinni fyrir einu og hálfu ári síðan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verður með U19 í undankeppni EM.
Verður með U19 í undankeppni EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég verð að vera hreinskilinn að þetta gerðist hraðar en ég bjóst við'
'Ég verð að vera hreinskilinn að þetta gerðist hraðar en ég bjóst við'
Mynd: EPA
Viktor Bjarki Daðason er kominn aftur til Kaupmannahafnar eftir að hafa flogið með liði FCK heim frá London eftir leikinn gegn Tottenham í Meistaradeildinni. Viktor er 17 ára framherji sem hefur komið inn í aðallið FCK á síðustu vikum.

Um miðjan síðasta mánuð lagði hann upp mark í sínum fyrsta deildarleik með FCK og í næsta leik á eftir skoraði hann í Meistaradeildinni gegn Dortmund og varð við það yngsti Íslendingurinn til að skora í keppninni. Í lok síðasta mánaðar skoraði hann svo og lagði upp í bikarsigri gegn Hobro.

Fótbolti.net ræddi við framherjann í dag. Miðað við hversu mikið hefur gerst hjá kappanum síðustu vikur var tónninn í honum mjög yfirvegaður og hann greinilega mjög jarðbundinn.

Frábær upplifun
Hvernig var að spila á móti Tottenham í gær?

„Það er draumur að spila í stærstu deild í heimi, en mest af öllu langaði mig að vinna leikinn. Þetta var erfiður leikur en mér fannst eins og við hefðum getað gert aðeins betur, en svona er þetta á móti toppliðum, þau refsa ef þú gerir mistök. Þetta var samt frábær upplifun að spila á Tottenham vellinum," segir Viktor sem kom inn á í hálfleik í gær.

Meiri hávaði á Parken
Hvernig er munurinn á heimavelli FCK, Parken, og svo heimavelli Tottenham?

„Mér finnst meiri hávaði á Parken vellinum sjálfum, þar eru allir hoppandi og skoppandi, en á Englandi er rólegra yfir þessu. Svo þegar koma mörk þá er hávaðinn þar meiri en verður á Parken. Heilt yfir er meiri stemning á Parken, en topparnir eru hærri á Tottenham vellinum. Á Englandi er allt öðruvísi umgjörð í kringum þetta og rosalega mikið af fólki."

Gerðu of mikið af tæknifeilum
Tottenham komst í 2-0 snemma í seinni hálfleik en svo fékk Brennan Johnson rautt spjald og gestirnir frá Kaupmannahöfn voru því manni fleiri út leikinn. FCK tókst ekki að nýta liðsmuninn og Tottenham bætti við tveimur mörkum. Bjóst þú við því að leikurinn myndi breytast meira en hann gerði?

„Ég upplifði von um að við gætum gert eitthvað þegar rauða spjaldið kom. Fyrir leikinn var von um að við gætum gert eitthvað gegn Tottenham, förum inn í alla leik þannig. Við ætluðum okkur að skora, en gerum alltof mikið af tæknifeilum og svona góð lið refsa fyrir það eins og þannig varð raunin í gær."

Upplifir ennþá rosalega tilfinningu þegar hann hugsar til baka
Að stóru stundinni, rjómanum á kökunni, markinu gegn Dortmund fyrir tveimur vikum. Hvernig er að hugsa til baka og hversu oft ertu búinn að horfa á markið?

„Tilfinningin er rosaleg ennþá, en ég er svolítið búinn að 'settla' hana. Núna er bara að halda áfram. Auðvitað var þetta frábært kvöld, skemmtilegt. Ég er örugglega búinn að horfa á markið 7-10 sinnum," segir Viktor.

Gerðist hraðar en hann bjóst við
Hvernig hafa síðustu vikur verið eftir að kallið kom fyrst í aðalliðið?

„Þær eru búnar að vera skemmtilegar, það var draumur að vera í hóp í fyrsta skipti með aðalliði FCK. Það var búið að vera markmiðið frá því að ég kom í klúbbinn og var ógeðslega gaman. Svo er búið að vera geggjað að vera með liðinu, æfa á hæsta leveli, geggjað að æfa og spila með liðinu."

Hefðir þú trúað því í sumar að nokkrum vikum seinna yrðir þú í hóp með aðalliðinu?

„Nei, ég verð að vera hreinskilinn að þetta gerðist hraðar en ég bjóst við. Ég hafði samt alltaf trú á því að ef ég myndi leggja hart að mér og gera mitt besta þá myndi kallið koma einhvern tímann á næstu mánuðum, en kannski ekki svona fljótt."

Valinn í hópinn eftir tvær æfingar
Hvernig var að fá kallið í fyrsta leik, fá að vera í hópnum?

„Það var rosalegt. Ég var búinn að taka einhverjar tvær æfingar með aðalliðinu, fæ að vita að ég verði í hópnum sem var draumur - rosaleg tilfinning. Sá leikur var líka á Parken sem gerði þetta ennþá skemmtilegra, að fá að sjá hvernig stemningin væri frá sjónarhorni leikmanns. Þetta var mjög skemmtileg upplifun."

Nær að sóna út í látunum
Hvernig er að upplifa stemninguna á Parken sem leikmaður?

„Það eru ótrúleg læti og maður heyrir alveg í þeim, en ég næ að einbeita mér að leiknum. Um leið og ég byrja að spila þá sóna ég út, maður heyrir auðvitað einhver hljóð en maður er ekkert að pæla mikið í því. Þegar maður er í stúkunni tekur maður eftir stuðningsmönnum hoppa og skoppa en þegar maður er inni á vellinum heyrir maður lætin."

Rútínan eins en gæðin meiri
Hvaða breyting varð eftir að þú varst kallaður inn í aðalliðið?

„Ég er búinn að vera í U17 og U19. Rútínan er í raun sú sama, bara annað lið. Eina breytingin sem ég upplifi er gæðamunur og tempó á æfingum sem maður þarf að venjast."

Get lært af þeim á hverjum degi
Á meðal þeirra sem Viktor Bjarki berst við um mínútur í liðinu eru Andreas Cornelius og Youssoufa Moukoko sem varð á síðasta HM sá yngsti til að spila með þýska landsliðinu. Hvernig er að vera kominn á þann stað að vera berjast við jafn öfluga leikmenn?

„Auðvitað er það skemmtilegt, það er hægt að læra af þeim á hverjum degi, hvort sem maður er að keppast við þá eða ekki. Ég get lært helling af Cornelius sem hefur verið í danska landsliðinu og atvinnumaður í mörg ár. Svo er Moukoko líka með mikla reynslu. Ef ég þarf að spyrja þá að einhverju þá geri ég það. Maður gerir sitt besta á æfingu og leggur hart að sér, þá vonandi kemur kallið í liðið og ég geri svo mitt besta úr því."

Alltaf klár ef kallið kemur
FCK á leik gegn Vejle á sunnudaginn, nálgast þú næstu daga eins og þú sért að fara spila í þeim leik?

„Já, ég er alltaf klár, undirbý mig eins og ég muni fá einhverjar mínútur og hef alltaf nálgast þetta þannig. Ég vil auðvitað spila mínútur og sama hvort það eru margar eða ekki, þá geri ég mig kláran fyrir það."

FCK er í fjórða sæti sem er ekki viðunandi staða hjá danska stórliðinu.

Auðvitað pressa að vera í stærsta klúbbi í Skandinavíu
Finnur þú fyrir mikilli pressu á að vera í treyjunni og að ná í úrslit?

„Auðvitað er pressa að vera í stærsta klúbbi í Skandinavíu. Menn búast við sigri í öllum leikjum og því fylgir pressa. Fyrir mér snýst þetta bara um að fara út og spila fótbolta með liðinu, við erum inn á vellinum og stjórnum því hvað gerist. Það er okkar að gera eins vel og við getum og reyna vinna alla leiki."

Elskar lífið í Kaupmannahöfn
Hvernig er lífið í Kaupmannahöfn?

„Það er frábært, borgin er frábær og mjög þægilegt að búa hérna. Maður er eins nálægt Íslandi og hægt er. Ég elska lifið hérna."

Viktor býr í íbúð sem FCK hjálpaði að útvega honum og pabbi hans býr hjá honum.

„Það hjálpar að hafa pabba, hjálpar að hafa einhvern til að elda og einhvern til að tala við eftir leiki - einhvern svo manni leiðist ekki alveg."
ein
..Rúnar Alex getur kennt mér mikið"
Rúnar Alex Rúnarsson er liðsfélagi Viktors hjá FCK.

„Það er frábært, það hefur hjálpað mér að hafa hann í hópnum. Frábær gaur og geggjað að hafa hann með mér í liði. Hann getur kennt mér mikið inn á þetta líf, hann er búinn að vera atvinnumaður lengi. Það er heiður og skemmtilegt að vera með honum í þessu. Það kemur kannski að því einn daginn að við kíkjum í golf saman."

Rólegur yfir landsliðsvalinu og skilur rökin
Viktor var valinn í U19 landsliðið í dag. Margir bjuggust við því að hann yrði í U21 eða jafnvel A-landsliðinu.

„Ég var ekkert mikið að pæla í þessu, ég vissi í vikunni að ég yrði í U19. Markmiðið er alltaf að stefna eins langt og er, en ég geri bara það besta úr því kalli sem ég fæ. Auðvitað stefndi ég hærra núna, en það skiptir mig persónulega ekki máli. Vonandi held ég bara áfram vegferðinni sem ég er á og það kemur kannski einhvern tímann eitthvað annað kall seinna."

„Markmiðið á endanum er klárlega að komast í A-landsliðið, það er draumur allra krakka á Íslandi. Eina sem er hægt að gera til að komast þangað er að leggja eins hart að sér og hægt er, gera sitt besta, og spila eins vel og maður getur. Þá vonandi fær maður kallið, næst eða einhvern tímann seinna."


Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ, sagði við Fótbolta.net í dag að það hafi verið mat þeirra sem komu að valinu að kraftar Viktors yrðu best nýttir með U19 landsliðinu. Þar væru þrír leikir framundan í undankeppni EM, en hjá U21 væri einungis einn leikur.

„Ég persónulega skil alveg þá hugsun, þrír leikir á móti einum, við í U19 erum að spila leiki til að reyna komast á EM," segir Viktor Bjarki.
Athugasemdir
banner
banner
banner