Thomas Frank talaði við fjölmiðla eftir þægilegan 3-0 sigur Tottenham gegn Slavia Prag í Meistaradeildinni í gærkvöldi. Hann var ánægður með sigurinn og hrósaði nokkrum leikmönnum í hástert að leikslokum.
Xavi Simons var besti leikmaður vallarins annan leikinn í röð eftir að hafa einnig verið maður leiksins í 2-0 sigri gegn Brentford um helgina.
„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna, leikmenn eru að ná betur saman. Við erum á réttri braut," sagði Frank. Hann talaði um leikbann Micky van de Ven sem það eina neikvæða sem kom úr þessum leik.
„Xavi skilaði aftur góðri frammistöðu, hann var mjög góður og snyrtilegur í sínum aðgerðum. Hann er með magnaða tæknilega hæfileika í bland við hraða og góða skottækni, auk þess að vera mjög vinnusamur. Það var atvik í uppbótartíma þar sem hann hljóp alla leið til baka til að verjast, það er lykilatriði fyrir mig. Allir verða að leggja vinnu á sig og hlaupa. Frammistaða hans var mjög góð í þessum leik og síðasta."
Frank sagði að Son Heung-min hafi komið inn í klefa og spjallað við Tottenham-liðið fyrir upphafsflautið og hrósaði svo Mohamed Kudus.
„Mo byrjaði tímabilið mjög vel en dalaði svo aðeins. Núna hefur hann verið frábær í síðustu þremur leikjum. Strákarnir eru líka byrjaðir að ná betur saman innan vallar, það skiptir máli.
„Þetta var mjög góð frammistaða en í framtíðinni þá munum við spila enn betur. Við stjórnuðum leiknum og ég er viss um að við getum stjórnað svona leikjum ennþá betur eftir meiri tíma saman. Þetta er sérstaklega sætur sigur eftir að hafa spilað fjóra leiki á tíu dögum áður en við fengum þriggja daga hvíld fyrir Brentford og aftur fyrir þennan leik. Leikjaálagið er svakalegt."
Tottenham er með 11 stig eftir 6 umferðir í Meistaradeildinni. Liðið er á sama tíma um miðja deild í ensku úrvalsdeildinni, með 22 stig úr 15 leikjum. Framundan eru leikir gegn Nottingham Forest og Liverpool fyrir jól.
„Við getum byggt á þessum sigrum í síðustu leikjum til að ná í góð úrslit í næstu leikjum. Við höfum verið mjög góðir á útivelli á tímabilinu og vonandi höldum við áfram að standa okkur. Núna þurfum við að jafna okkur eftir þennan leik áður en við beinum einbeitingunni að næstu helgi."
Athugasemdir




