Spænski stjórinn Pep Guardiola kom með heldur undarleg ummæli um samlanda sinn og kollega, Xabi Alonso, fyrir leik Manchester City og Real Madrid á blaðamannafundi í gær.
Guardiola er mikill aðdáandi Alonso og segir þá vera góða vini, en hann ræddi aðeins um gengi hans með Madrídinga og pressuna sem fylgir því að stýra svona stóru liði.
Á blaðamannafundinum talaði hann um slæma kaflann sem Man City fór í gegnum á svipuðum tíma á síðasta tímabili og að hann hefði fengið sparkið hefði hann verið að þjálfa Madrídinga.
Síðan lét hann stórfurðuleg ummæli falla sem þykja að vísu ekkert svo furðuleg á Spáni.
„Xabi Alonso á að sjá sjálfur um það að pissa. Ég ætla ekki að pissa fyrir hann. Svo lengi sem hann pissar ekki rakspíra þá ætti allt að vera í fínasta lagi. Ertu ekki hrifinn af þessari fyrirsögn?“ sagði og spurði Guardiola.
Spænska meiningin á bakvið þetta orðatiltæki er að Alonso er mennskur og ekki töframaður. Hlutirnir verða ekki alltaf fullkomnir eða áreynslulausir. Hann þarf að taka eigin ákvarðanir og það sem gerist mun gerast.
Engu að síður áhugaverð ummæli hjá Guardiola, en talið er að Alonso verði látinn fara frá Real Madrid ef liðið tapar fyrir Man City í kvöld.
Spænskir miðlar hafa margir ritað að óánægja sé með Alonso í búningsklefanum og að þolinmæði Madrídinga sé á þrotum þó svo liðið hafi aðeins tapað þremur leikjum á tímabilinu.
Athugasemdir


