Það voru gríðarlega spennandi leikir sem fóru fram í Meistaradeildinni í kvöld þar sem Real Madrid tók á móti Manchester City í stærsta leiknum.
Rodrygo tók forystuna fyrir heimamenn í fyrri hálfleik en Nico O'Reilly og Erling Haaland snéru stöðunni við með sitthvoru markinu fyrir leikhlé. O'Reilly skoraði eftir undirbúning frá Josko Gvardiol áður en Haaland setti boltann í netið úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Antonio Rüdiger reif Haaland niður þegar Norðmaðurinn gerði sig líklegan til að fara upp í skallabolta.
Man City var sterkara liðið í fyrri hálfleik og verðskuldaði forystuna en seinni hálfleikurinn var jafnari og fengu heimamenn bestu færin. Brasilíumaðurinn Endrick komst næst því að jafna metin þegar marktilraun hans fór í slána á lokakaflanum.
Madrídingum tókst þó ekki að gera jöfnunarmark svo lokatölur urðu 1-2 fyrir Man City. Lærlingar Pep Guardiola eiga 13 stig eftir 6 umferðir, einu stigi meira heldur en Real Madrid.
Arsenal heimsótti Club Brugge til Belgíu og fór létt með andstæðinga sína, þar sem Noni Madueke skoraði tvennu eftir stoðsendingar frá Martín Zubimendi áður en Gabriel Martinelli innsiglaði góðan sigur.
Heimamenn í Brugge voru líflegir en þeim tókst ekki að skora framhjá skipulagðri vörn Arsenal, þar sem miðjumaðurinn Christian Nörgaard spilaði í miðverði vegna meiðslavandræða liðsins.
Gabriel Jesus lék síðasta hálftíma leiksins eftir að hafa verið frá keppni í tæpt ár vegna meiðsla. Honum tókst ekki að bæta við marki svo lokatölur urðu 0-3 fyrir Arsenal.
Arsenal er því áfram með fullt hús stiga í Meistaradeildinni og markatöluna 17-1. Club Brugge er með 4 stig.
Newcastle United er síðasta enska félagið sem kom við sögu í kvöld. Lærlingar Eddie Howe heimsóttu Bayer Leverkusen til Þýskalands og úr varð hörku slagur.
Liðin skiptust á að eiga góð færi í opnum og skemmtilegum leik en lokatölur urðu 2-2, þar sem Anthony Gordon skoraði og lagði upp fyrir gestina.
Newcastle er með 10 stig eftir þetta jafntefli, einu stigi meira heldur en Leverkusen.
Real Madrid 1 - 2 Manchester City
1-0 Rodrygo ('28 )
1-1 Nico OReilly ('35 )
1-2 Erling Haaland ('43 , víti)
Club Brugge 0 - 3 Arsenal
0-1 Noni Madueke ('25 )
0-2 Noni Madueke ('47 )
0-3 Gabriel Martinelli ('56 )
Bayer Leverkusen 2 - 2 Newcastle
1-0 Bruno Guimaraes ('13, sjálfsmark)
1-1 Anthony Gordon ('51, víti)
1-2 Lewis Miley ('74 )
2-2 Alejandro Grimaldo ('88 )
Athugasemdir



