Lamine Yamal var á sínum stað í byrjunarliði Barcelona þegar liðið tók á móti Eintracht Frankfurt í gærkvöldi.
Barca vann 2-1 og lagði Yamal sigurmarkið upp á 53. mínútu leiksins. Hann bætti þar með met Kylian Mbappé og kom sér í sögubækurnar, enginn leikmaður 18 ára eða yngri hefur komið að fleiri mörkum í sögu Meistaradeildarinnar. Yamal er með 14 mörk og stoðsendingar í keppninni þrátt fyrir ungan aldur, en hann verður ekki 19 ára fyrr en næsta sumar.
10.12.2025 07:00
Yamal tók metið hans Mbappe
Hansi Flick þjálfari Barcelona ákvað þó að skipta Yamal útaf á 89. mínútu og brást táningurinn ekki vel. Hann var augljóslega pirraður eftir skiptinguna en Flick telur það vera jákvætt merki.
„Hann var smá svekktur með skiptinguna en hann var á gulu spjaldi og við þurftum ferskar lappir. Það er ekkert vandamál, ég get skilið hann. Allir leikmenn vilja spila og Yamal vill spila hverja einustu mínútu," sagði Flick eftir sigurinn.
„Hann er ungur og ég er hrifinn af metnaðinum sem hann sýnir. Þetta er jákvætt hugarfar að vilja spila allar mínútur sem eru í boði, það er ekki vandamál í mínum huga. Ég var leikmaður sjálfur og skil hann, ég get samþykkt þessa hegðun."
Varnarmaðurinn Jules Koundé skoraði bæði mörk Barca í sigrinum og komst einnig í sögubækurnar. Hann er fyrsti leikmaður í sögu félagsins til að skora tvö skallamörk í sama leik í Meistaradeildinni, auk þess að vera fyrsti varnarmaður félagsins til að skora tvennu í keppninni síðan Ronald Koeman gerði það í mars 1994.
Athugasemdir




