Chelsea leggur aukna áherslu á að fá Mainoo - Milan vill Mitchell - Phillips gæti snúið aftur til Leeds
   þri 11. mars 2025 14:10
Elvar Geir Magnússon
Fyrirliði Vestra braut veðmálareglur - „Ég brást sjálfum mér“
Elmar Atli Garðarsson.
Elmar Atli Garðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra, viðurkennir í skrifum á Facebook að hafa brotið veðmálareglur með því að veðja á leiki í Bestu deildinni. KSÍ er með málið í skoðun.

Elmar segir að veðmálin hafi ekki tengst Vestra og ekki haft áhrif á hans lið. Hvorki hafi verið um umtalsverðar fjárhæðir að ræða né hafi hann haft hag af.

„Ég er fyrirliði og er því fyrirmynd annarra leikmanna og stuðningsmanna félagsins. Ég brást sjálfum mér og þessi yfirlýsing verður örugglega mörgum vonbrigði. Feluleikur eða undanbrögð þjóna engum tilgangi," skrifar Elmar meðal annars en hann heitir dómstólum KSÍ fullri samvinnu.

Sigurður Gísli Bond Snorrason fékk eins árs bann árið 2023 fyrir brot á veðmálareglum en hann veðjaði á hundruð fótboltaleiki hér á landi árið 2022, þar á meðal á leiki sem hann tók þátt í sjálf­ur. Í júní 2023 fékk Steinþór Freyr Þorsteinsson, leikmaður KA, bann út árið fyrir brot á veðmálareglum.

Skrif Elmars Atla á Facebook:
Knattspyrnufólk Íslands og stuðningsmenn Vestra.

Mér finnst rétt að ég bregðist við og upplýsi sjálfur um mistök sem ég gerði.

Ég vil vera hreinskiptinn með atvik og dreg ekkert undan. Mín mistök eru þau að ég veðjaði á leiki í Íslandsmóti KSÍ. Þetta gerði ég sjálfur og án þess að nokkur tengdist þeim veðmálum. Voru þetta veðmál á leiki í Bestu deildinni. Veðmál mín tengdust hvorki Vestra né heldur gátu haft nokkur áhrif á stöðu liðs míns eða annarra liða sem voru í keppni við okkur. Hvorki var um umtalsverðar fjárhæðir að ræða né heldur hafði ég nokkurn hag af. Fyrst og fremst var þetta leið til þess að hafa meira gaman af því að fylgjast með leikjunum. Þetta voru mistök af minni hálfu og lýsa ákveðnum dómgreindarbresti. Ég er fyrirliði og er því fyrirmynd annarra leikmanna og stuðningsmanna félagsins. Ég brást sjálfum mér og þessi yfirlýsing verður örugglega mörgum vonbrigði. Feluleikur eða undanbrögð þjóna engum tilgangi. Ég gerði mistök. Ég viðurkenni mistök mín og ég læri af þeim. Ég vona að viðurkenning mín opni augu annarra fyrir þeirri ábyrgð sem við knattspyrnumenn berum og skyldum gagnvart heilindum leiksins.

Dómstólar Knattspyrnusambands Íslands munu fá mál mitt til meðferðar.

Ég heiti fullri samvinnu og fel ekkert.
Áfram með leikinn.
Elmar Atli

Athugasemdir
banner
banner