Englandsmeistarar Liverpool hafa sent kvörtunarbréf til PGMOL (enska dómarasambandsins) vegna marksins sem var tekið af liðinu í 3-0 tapinu gegn Manchester City um helgina. Athletic/i> og Sky Sports greina frá.
Markið sem um ræðir er skallamark Virgil van Dijk í fyrri hálfleiknum en það reyndist afar umdeild ákvörðun.
Van Dijk stangaði hornspyrnu í netið og taldi sig hafa jafnað metin gegn einu sterkasta liði deildarinnar.
Chris Kavanagh, dómari leiksins, og Michael Oliver, VAR-dómari, tóku markið af, en enska úrvalsdeildin taldi Andy Robertson hafa haft veruleg áhrif á Gianluigi Donnarumma, markvörð Man City.
Van Dijk stangaði boltann í átt að marki, en Robertson stóð nálægt marklínunni og beygði sig þannig boltinn færi yfir hann og í netið. Þegar endursýning er skoðuð virðist Robertson hafa lítil áhrif á Donnarumma og var Jeremy Doku aðallega sá sem hafði áhrif á sjónlínu hans. Ítalinn hafði þá verulegt svigrúm til þess að skutla sér á eftir boltanum.
Liverpool er ósammála því að markið hafi verið dæmt af og hefur nú sent PGMOL kvörtunarbréf þar sem þeir telja að stór mistök hafi verið gerð í leiknum og að markið hafi verið gott og gilt.
Kavanagh hefur verið dómari í þremur leikjum þar sem svipað atvik hefur komið upp. Hann var á flautunni er mark John Stones gegn Wolves á síðasta tímabili var dæmt gilt er Bernardo Silva stóð í sjónlínu markvarðarins, en Kavanagh var einnig á flautunni er svipað mark var tekið af Dominic Calvert-Lewin í leik Everton gegn Man Utd tímabilið 2019-2020 þar sem Gylfi Þór Sigurðsson var fyrir innan og metið að hann hafi haft áhrif á David De Gea, án þess að snerta boltann.
Athugasemdir



