Kerfisbreyting hjá Man Utd? - Nunez var nálægt Sádi - Stórlið vilja Dean Huijsen - Ratcliffe að reka fleiri?
   mið 12. febrúar 2025 15:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Mættur heim eftir rúman áratug í burtu - „Eitthvað sem kallaði mig til baka"
'Það komu einhverjar tilfinningar til mín að láta reyna á að fara í FH og það gekk upp'
'Það komu einhverjar tilfinningar til mín að láta reyna á að fara í FH og það gekk upp'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Auðvitað vonast maður til þess að FH komist aftur á þann stall sem félagið var'
'Auðvitað vonast maður til þess að FH komist aftur á þann stall sem félagið var'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mun sennilega láta vaða með vinstri fætinum ef tækifæri gefst til í sumar.
Mun sennilega láta vaða með vinstri fætinum ef tækifæri gefst til í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hann vill að menn æfi vel og ekkert elsku mamma, sem ég fíla'
'Hann vill að menn æfi vel og ekkert elsku mamma, sem ég fíla'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Smá Valsari, en reyndi samt að gefa á Björn Daníel í leik liðanna.
Smá Valsari, en reyndi samt að gefa á Björn Daníel í leik liðanna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Einar Karl Ingvarsson er mættur heim í FH eftir rúmlega áratuga fjarveru. Hann er búinn að skrifa undir eins árs samning við uppeldisfélagið en hann kemur frá Grindavík þar sem hann hefur verið síðustu tvö tímabil.

Einar Karl lék sína fyrstu leiki með FH 2010, varð bikarmeistari það ár og hjálpaði FH svo að verða Íslandsmeistari 2012. Hann fór á láni til Fjölnis fyrri hlutann 2014, var fenginn í glugganum til Vals og var lánaður til Grindavíkur seinni hlutann. Hann varð bikarmeistari með Val tímabilin 2015 og 16 og Íslandsmeistari 2017, 18 og 2020. Eftir tímabilið 2020 söðlaði hann um og tók tvö tímabil í Garðabæ með Stjörnunni áður en hann svo samdi við Grindavík í Lengjudeildinni.

„Það er mjög góð tilfinning að vera kominn aftur í FH, líður mjög vel að fá að taka slaginn aftur með uppeldisfélaginu. Það var mikill áhugi frá mér að koma aftur í FH. Þegar ég sá að ég var að renna út hjá Grindavík var í boði að vera þar áfram, en það var eitthvað sem kallaði mig til baka. Grindavík var að æfa í Kaplakrika og það komu einhverjar tilfinningar til mín að láta reyna á að fara í FH og það gekk upp," segir Einar Karl.

Þú hefur leyst af í varnarlínunni í síðustu leikjum FH. Sérðu þig spila þar í sumar?

„Það verður eiginlega bara að spyrja Heimi að því hvort hann sjái mig fyrir sér þar. Hann hefur aðeins verið að nota mig í vinstri bakverðinum, búin að vera einhver meiðsli hér og þar. Ég er svo sem til í hvað sem er."

Hefur þú verið nálægt því að fara í FH eftir að þú fórst frá félaginu?

„Nei, í rauninni ekki. Það hefur kannski komið eitthvað umtal, en aldrei farið í neinar viðræður þannig. Ég hef kannski aðeins verið að pæla í því að ég gæti komið aftur, en ekkert orðið orðið úr því fyrr en núna."

Er mikið búið að breytast hjá FH?

„Hópurinn er talsvert breyttur auðvitað, mikið af ungum leikmönnum, en einhverjir frá því ég var síðast. Björn Daníel, Böddi og Flóki eru hérna. Þjálfarateymið er náttúrulega búið að breytast, t.d. Ben styrktarþjálfari sem sér um lyftingarnar og hlaupatölurnar. Það er mjög gott utanumhald um hópinn, mjög faglegt. Þegar ég var hérna síðast voru ekki komin hlaupavestin með kubbunum sem söfnuðu gögnum. Þjálfarinn er sá sami, Heimir er ennþá, svo breytingarnar hjá FH eru ekkert rosalegar kannski."

Aðstaðan hjá FH er mjög góð, hvernig er hún samanborin við annars staðar?

„Þetta er í hæsta gæðaflokki á Íslandi. Það eru þrjár innanhúshallir, frjálsíþróttahöll, frábæra líkamsrækt, völl með hybrid-grasi og svo keppnisvöllinn sjálfan. Fyrir mig er bara geggjað að vera kominn aftur og aðstaðan er bara geggjuð."

Kristján Flóki lét þau fleygu orð falla að þetta væri eins og að labba inn í framtíðina. Tekur þú undir það?

„Algjörlega. Ef maður horfir í aðstöðuna hjá öðrum félögum, þá eru mörg félög með góða aðstöðu en að vera með svona mikið á sama staðnum er frábært og framúrskarandi og þægilegt."

Er þjálfarinn, Heimir Guðjónsson, eitthvað búinn að breytast?

„Hann er mjög svipaður og heldur sínum stöðugleika, er búinn að þróa leikinn sinn gegnum tíðina en heldur í gömlu góðu gildin sem er mikilvægt. Hann vill að menn æfi vel og ekkert elsku mamma, sem ég fíla."

Er nálgunin á þennan vetur eitthvað öðruvísi þar sem þú hefur síðustu tvo vetra undirbúið þig fyrir tímabil í Lengjudeildinni?

„Nei, í rauninni ekki, ég held alltaf mínu striki og æfi eins vel og ég get. Mig langaði að koma aftur heim í uppeldisfélagið og langaði að fara aftur í efstu deild. Markmiðið var alltaf að fara með Grindavík upp í efstu deild, en það gekk því miður ekki. Mér finnst ég eiga heima í efstu deild og langaði að spila þar aftur."

„Ég er mjög spenntur fyrir því að spila aftur í efstu deild, deildin er orðin mjög öflug, mikið af góðum liðum og það verður bara spennandi að keppa í henni aftur. Metnaðurinn er það mikill að maður vill vera í því að spila á hæsta getustiginu og spila við öll bestu liðin."


Hvert er markmið þitt með FH?

„Mig langar að spila sem flesta leiki, en ef hlutverkið mitt verður eitthvað öðruvísi þá er það bara eins og það er og ég mun þá bara reyna hjálpa liðinu og ungu gæjunum eins og ég get. Metnaðurinn og hungrið er alltaf þannig að ég vil spila alla leiki, en það bara kemur í ljós hvað verður. Það eru margir ungir strákar í FH og vil líka reyna hjálpa þeim áfram eins og ég get."

„Auðvitað vonast maður til þess að FH komist aftur á þann stall sem félagið var, hvort sem það sé að berjast um titla eða Evrópusæti."


Á meðan þú varst í burtu, hélst FH hjartað alltaf sterkt?

„Það er alltaf FH hjarta í manni, maður er búinn að vera þar lengst. Ég náði góðum árum hjá Val og það er smá Valsari í manni, en í grunninn er maður alltaf FH-ingur."

Hvað getur FH gert í sumar?

„Liðið var í efri hlutanum í fyrra. Ég held að markmiðið sé að reyna vera þarna uppi og reyna að halda sem mestum stöðugleika. Stefnan er bara að reyna komast eins hátt og við getum," segir Einar Karl.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner