
Grindavík og Grótta gerðu markalaust jafntefli á Stakkavíkurvellinum í Grindavík í kvöld þar sem liðin mættust í annari umferð Lengjudeildar karla. Leikurinn fer seint í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi og fallega knattspyrnu og mætti Sigurjón Rúnarsson miðvörður Grindavíkur í viðtal við fréttaritara að leik loknum.
Lestu um leikinn: Grindavík 0 - 0 Grótta
„Þetta var svona týpískur grasleikur, menn áttu erfitt með að fóta sig og þetta var bara algjört bras frá fyrstu mínútu.“ Sagði Sigurjón um lýsingu fréttaritara um leikinn sem fannst hann heldur bragðdaufur.
Aðstæður á vellinum voru erfiðar, völlurinn á töluvert í langt og var þess utan mjög blautur og þungur. Leikurinn náði því aldrei neinum hraða og virtist sem svo að fætur leikmanna væru fljótar að þyngjast í baráttunni við völlinn.
„Það var mjög erfitt. Hann er mjög laus í sér og þungur og menn verða bara þungir og það er ekkert meira um það að segja.“
Grindvíkingar fengu heilt yfir fleiri færi í leiknum en gestirnir af Seltjarnarnesi en tókst ekki að nýta þau frekar en gestunum.
„Á meðan að við höldum hreinu þá er ég sáttur en við þurfum að klára færin okkar sem við komumst í. Við fengum fullt af hálffærum þar sem vantaði smá uppá,“
Sagði Sigurjón en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir