Man City hefur áhuga á Pogba - Barist um Kudus - Amorim ætlar að styrkja hóp Man Utd
   sun 12. júní 2022 15:01
Elvar Geir Magnússon
Arnar við Stefán Árna: Kíktu sjálfur ef þú ert ekki búinn að vinna þína vinnu
Arnar Þór Viðarsson.
Arnar Þór Viðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Árni Pálsson íþróttafréttamaður.
Stefán Árni Pálsson íþróttafréttamaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári á landsliðsæfingu fyrir nokkrum árum.
Kári á landsliðsæfingu fyrir nokkrum árum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Árni Pálsson, íþróttafréttamaður á Vísi og Stöð 2, spurði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfara út í þá gagnrýni sem hann og liðið hefur verið að fá. Arnar sat fyrir svörum á fréttamannafundi í Laugardalnum í aðdraganda Þjóðadeildarleiksins gegn Ísrael.

Gagnrýni Kára Árnasonar á upphitunaraðferðir landsliðsins á æfingum komu við sögu í samræðum Arnars og Stefáns en þær má sjá hér að neðan.

Stefán Árni: „Ég vil spyrja þig út í þessa gagnrýni sem hefur verið svakalega hörð. Við sáum sparkspekinga, fyrrum landsliðsmenn og þjóðina tjá sig. Hvernig hefur verið fyrir þig sem manneskju að tækla þetta og hvernig heldur þú að þetta sé að fara í hóp með svona ungum leikmönnum?"

Arnar: „Sko, eins og ég sagði við kollega þinn fyrir viku síðan, ef gagnrýnin er einher ákveðin gagnrýni, og við erum þá að tala um leikskipulag, skiptingar í leik eða game management þá er bara ekkert mál að ræða það. Það er fótboltaleg gagnrýni. Þú ert í raun með sömu spurningu og Gaupi kom með í síðustu viku en orðar hana öðruvísi. Það sem ég er að meina er að ég get ekki rætt allt sem talað er um í þjóðfélaginu."

„Við erum á ákveðinni vegferð og allir sem vilja sjá það þeir sjá að það er góð þróun í liðinu og leikmönnunum. Ef þú myndir koma inn í hópinn myndir þú sjá að það er jákvæð orka í gangi. Eins og ég hef sagt oft, þetta tekur sinn tíma. Það er mikilvægt fyrir unga leikmenn að fá vinnufrið, ef við orðum það þannig. Ég sem þjálfari í þessari stöðu veit að það kemur gagnrýni. Sumir eru gagnrýnir en sumir sjá að það er margt jákvætt. Maður þarf bara að vinna í því, það er hluti af mínu starfi. Það eru forréttindi að vera í leiðtogahlutverki, annars væri ég ekki í þessu starfi."

Stefán Árni: „Ef ég gríp í nokkra punkta sem hafa verið gagnrýndir. Fyrrum landsliðsmenn tala um að þetta hafi verið soft. Allt sé of vingjarnlegt í kringum þetta. Eins og það sé ekkert leikplan og skandall að vinna San Marínó bara 1-0. Hvernig svarar þú því?"

Arnar: „Hverju viltu byrja á?"

Stefán Árni: „Að þið séuð of soft?"

Arnar: „Hvernig ætlar þú að mæla það?"

Stefán Árni: „Leikmenn séu ekki nægilega ákveðnir, ekki nægilega..."

Arnar grípur inn: „Til að skoða þetta þá skoða ég tölfræði, eins og til dæmis unnin návígi. Hefur þú skoðað þá tölfræði?"

Stefán Árni: „Nei."

Arnar: „Ok"

Stefán Árni: „Og hvernig er sú tölfræði?

Arnar: „Kíktu sjálfur, ef þú ert ekki búinn að vinna þína vinnu. Ef þú tækir eftir leikjum og andstæðingum. San Marínó? Við unnum fleiri einvígi."

Stefán Árni: „Ég er að taka saman punkta sem ég hef heyrt vera gagnrýndir og er að spyrja þig hvað þér finnst um þá punkta."

Arnar: „Þú ert að vitna í eitthvað sem annar hefur sagt."

Stefán Árni: „Aha, ég er að gera það."

Arnar: „Þú ert til dæmis að vitna í Kára (Árnason), og það sem Kári er að segja, ég skil alveg hluta af því sem Kári er að segja. Hann skilur leikinn og hefur verið í þessu. Mér finnst óheppilegt hvernig Kári kemur þessu frá sér. Það er bara mín skoðun. Kári vinnur sína vinnu sem sérfræðingur eins og hann vill."

„Hann var að vitna í myndband af æfingu. Þetta er myndband frá upphitun og er svona í öllum liðum, eða kannski ekki öllum en flestum liðum í Evrópu eða heiminum. Þar sem er reynt að hafa gaman, búa til skemmtun og sigurtilfinningu. Það þarf ekki að leita lengi til að finna Kára hlæjandi á æfingu. Ég veit hvert Kári er að fara, hann vill meina að liðið þarf að vera þroskaðra og harðara. Ég skil það alveg. En það gerist bara með því að spila saman, fá reynsluna. Skilja út á hvað þessir landsleikir ganga. Kári skildi það ekki þegar hann var 21 árs, ég spilaði með Kára í landsliðinu og man eftir fullt af lélegum leikjum hjá Kára og mér líka."

„Kári á fullan rétt á því að hafa skoðun en að mínu mati var það 'soft' hjá honum, hvernig hann kom þessu frá sér."
Upptaka - Horfðu á fréttamannafund Arnars og Birkis
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner