„Tilfinningin er ólýsanleg. Ég er svo stolt af liðinu að hafa náð þessu markmiði," sagði Hildur Antonsdóttir, leikmaður Íslands, eftir 3-0 sigur gegn Þýskalandi í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 3 - 0 Þýskaland
Ísland hefur spilað nokkrum sinnum við Þýskaland upp á síðkastið og alltaf tapað, en það breyttist í kvöld.
„Við erum búnar að horfa á endalaust af myndböndum og búnar að spila við þær þrisvar á síðasta árinu. Við vitum hvað veikleika þær eru með og hverjir styrkleikar þeirra eru. Við náðum að loka vel á styrkleikana og nýta okkur þeirra veikleika. Við höfum verið að finna augnablikin í síðustu leikjum en það hefur ekki dottið með okkur. Núna nýttum við öll okkar færi."
Voru þessi úrslit eitthvað sem þú sást í draumum þínum?
„Draumurinn var 1-0 og 3-0 er því bara geggjað," sagði Hildur og hló. Það verður fagnað vel í kvöld en svo er það Pólland á þriðjudaginn.
„Við fögnum í kvöld. Við erum búnar að vera að dansa og syngja. Ég er orðin sveitt aftur. Við tökum stöðuna á morgun en þetta hefur alltaf verið draumamarkmiðið og það er geggjað að ná því."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir