Ægir Jarl Jónasson er ekkert nema leikheimildinni frá því að vera orðinn leikmaður danska félagsins AB. Hann er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við félagið sem kaupir hann frá KR. Ægir er uppalinn Fjölnismaður en fór í KR fyrir tímabilið 2019 og var því á sínu sjötta tímabili í Vesturbænum.
Ægir ræddi við Fótbolta.net í gær og ræddi um félagaskiptin.
Ægir ræddi við Fótbolta.net í gær og ræddi um félagaskiptin.
„Það er frábært að þetta sé í höfn," segir Ægir við Fótbolta.net. Hjá AB hittir hann fyrir þjálfarann Jóhannes Karl Guðjónsson sem var aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins áður en hann tók við starfinu hjá AB í maí.
Hikaði áður en hann svaraði símtalinu
Ægir vissi fyrst af áhuga danska félagsins þann 1. júní þegar síminn hringdi.
„Ég man það vel, það voru forsetakosningar sama dag. Ég hélt það væri kannski verið að biðja mig um að kjósa einhvern og ég var nálægt því að svara ekki. En ég tók símtalið og þá var þetta Jói Kalli, þá byrjaði mig að gruna eitthvað. Ég talaði svo betur við hann seinna og hann spurði hvort það væri áhugi frá mér að koma til Kaupmannahafnar," segir Ægir sem var samningsbundinn KR út þetta tímabil.
„Ég var strax mjög spenntur að skoða þetta. Ég hef heyrt góða hluti um Jóa, liðið er í Köben, í 3. deild en ég sé samt risatækifæri. Félagið er sögufrægt, stórt, í Köben og alvöru völlur. Þetta leit strax mjög „sexý" út, en það þurfti allt að ganga upp. Ég er með konu og barn, þá hoppar maður ekki bara út, það er smá ferli."
Fullkominn staður
Að áfangastaðurinn er Kaupmannahöfn, hjálpaði það við að sannfæra kærustuna um að taka þetta skref?
„Já, klárlega. Þetta er fullkominn staður, líka fyrir hana. Það er fullt af Íslendingum á svæðinu, við þekkjum fólk þarna."
Margt sem small saman
Hvernig selur Jói Kalli þér þetta verkefni?
„Ég er búinn að vera sex ár í KR og er mjög þakklátur fyrir þann tíma. Mér fannst kominn tímapunktur fyrir mig að prófa eitthvað nýtt. Hann selur mér að þetta sé hörkudeild; það er fullt af góðum liðum þarna."
„Hann lýsti því fyrir mér hvernig hann sæi mig spila og var mjög sannfærandi í því. Að hafa hann, íslenskan þjálfara, spilar líka risa hlutverk. Þetta tikkaði í mörg box. Tímapunkturinn líka, ég var að renna út á samningi eftir tímabilið, var ekki búinn að skrifa undir, það var margt sem þurfti að smella saman svo þetta færi í gegn."
Blessun að hafa ekki framlengt
Ægir var byrjaður í viðræðum við KR um nýjan samning en það ferli var ekki komið langt. Hlutirnir smullu vel saman fyrir Ægi.
„Það var komið samningstilboð nokkrum mánuðum áður. Ég var ekki alveg sáttur með það og ætlaði að bíða og sjá. Ég var ekkert að stressa mig á stöðunni, var bara ekki alveg sáttur með tilboðið. Það er blessun að ég var ekki búinn að skrifa undir, annars hefði þetta ekki komið upp."
Alltaf verið draumur
Ægir var ekki búinn að fá tilboð frá öðrum íslenskum félögum. „Ég var kominn með hugann mikið við þetta. Ég hef ekki spilað úti til þessa og hefur alltaf langað það. Þetta var það sem ég ætlaði að keyra á."
Hann hefur ekki verið nálægt því að fara út í atvinnumennsku áður. „Í rauninni ekki. Ég fór nokkrum sinnum út á reynslu hingað og þangað áður en ég fór í KR. Auðvitað var þetta alltaf draumur, en maður var kannski ekkert að pæla í því. Maður var bara með hausinn við KR, langaði bara að gera betur þar."
Hvergi betra að vera þegar titillinn kemur í hús
Íslandsmeistaratitilinn var hápunkturinn á dvöl Ægis hjá KR.
„Klárlega. Það var alveg frábært tímabil. Það var mitt fyrsta tímabil í KR, ég kom inn í félagið og bjóst ekkert við því að við yrðum meistarar. Ég var að koma inn á í eiginlega öllum leikjunum, þetta var frábært lið. Mitt hlutverk var að koma inn á og hjálpa til. Þetta var frábært sumar. Ég held það sé hvergi betra að vera en í KR þegar titilinn kemur í hús. Allur Vesturbærinn var á bakvið okkur."
Líkaminn meira vopn
Ægir er öðruvísi leikmaður í dag heldur en þegar hann kom í KR frá Fjölni. Þá var hann meira léttleikandi en í dag lætur hann meira finna fyrir sér og nýtir sér meira líkamlegan styrk.
„Ég hef fullorðnast, farið á sex árum úr því að vera efnilegur strákur í að vera orðinn fullorðinn maður. Ég er orðinn miklu reynslumeiri, miklu fleiri leiki undir beltið."
Eignaðist vini fyrir lífstíð
Ægir segir tímann í KR hafa verið frábæran.
„Þetta er mikill fjölskylduklúbbur og mér leið vel þarna. Tímabilið '22 þá var ég að renna út, kom upp áhugi frá Breiðabliki, en mér leið bara vel í KR, var ekkert að skoða neitt í kringum mig. Það er gott að vera í KR, mönnum líður vel og vilja gera vel fyrir félagið. Ég hef ekkert nema gott að segja um KR. Ég kvaddi liðsfélagana á þriðjudaginn, það var mjög erfitt. Ég hef eignast vini fyrir lífstíð."
Tækifæri sem hann vildi ekki sleppa
Við hverja talarðu áður en þú tekur þessa ákvörðun?
„Ég spurði mína nánustu og það voru allir mjög jákvæðir á þetta. Þetta er tækifæri sem ég vildi ekki sleppa. Ég talaði um þetta við nokkra í liðinu þegar þetta var farið að vera líklegt. Auðvitað vildu þeir hafa mig í liðinu, en voru mjög ánægðir fyrir mína hönd og samglöddust. Ég hugsaði mig alveg um, en að lokum tók ég þessa ákvörðun. Þetta er það sem ég og fjölskyldan viljum."
Einbeiting var alltaf á KR
Hugsaðir þú þegar komst í KR að það gæti verið stökkpallur til að svo komast út?
„Hugsunin var þá að fara í topplið á Íslandi. Auðvitað, með því að standa sig vel þar, þá var þetta alltaf möguleiki. Ég hugsa ekki um tvö skref fram í tímann, reyni bara að hugsa um hvar ég er og standa mig vel hverju sinni. Einbeitingin var bara á KR og gerði þokkalega á þeim tíma sem ég var þar. Ég vissi að þetta gæti verið möguleiki, en þegar maður er 25-26 ára þár þetta ekki jafnmikil pæling og þegar þú ert 21-22. Það er frábært að þetta kom upp og ég er virkilega spenntur að reyna láta til mín taka í Danmörku."
Tækifæri sem kemur kannski ekki aftur
Er hugsunin: núna eða aldrei með þetta skref?
„Það er svolítið þannig. Svona kemur kannski ekkert aftur, maður veit aldrei. Ég er orðinn 26 ára, að detta inn á besta aldurinn. Núna var bara að stökkva á þetta."
Óþægilegt að vera í óvissu
Ferlið tók sinn tíma, um 40 daga.
„Það er ánægjulegt að þetta er í höfn. Auðvitað er alltaf flókið að fara á miðju tímabili, alltaf smá hringrás. Félagið vill auðvitað finna mann í staðinn og það þarf að greiða einhverja fjárhæð - menn þurfa að vera tiltölulega sáttir svo þetta gangi upp. Það er óþægilegt að vera í óvissunni og því frábært að þetta sé klárt og bara léttir."
Rétt ákvörðun hjá Pálma
Það vakti smá athygli að áður en félagaskiptin voru gengin í gegn var Ægir utan hóps í leiknum gegn Stjörnunni. Ægir er á því að það hafi verið rétt ákvörðun hjá þjálfarateyminu.
„Á þeim tíma var þetta svolítið mikið að spíralast, það var allt á flugi á þeim tímapunkti. Ég talaði við Pálma. Við áttum gott spjall um þetta. Ég var alveg til í að hjálpa liðinu ef það þurfti, en hausinn var á fullu að pæla í þessu. Eins og Pálmi sagði: ef hausinn minn er út um allt, þá er kannski erfitt að hjálpa liðinu. Ég held þetta hafi eftir á verið fín ákvörðun."
Ætlar að hjálpa liðinu að komast upp um deild
Hvað viltu fá út úr þessu skrefi til AB?
„Mig langar að fara út og hjálpa liðinu að komast upp um deild. Ég vil standa mig vel, gefa af mér innan sem utan vallar. Það eru aðalmarkmiðin," segir Ægir sem fer til Kaupmannahafnar á sunnudaginn.
Athugasemdir