Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   fim 13. júní 2024 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Besta vika lífsins - „Óraunverulegt dæmi"
Icelandair
Eftir sigur á Englandi á Wembley.
Eftir sigur á Englandi á Wembley.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þessi vika, ef við stoppum hana eftir leikinn á Wembley, þá var þetta besta vika lífs míns. Það verður að segjast eins og er'
'Þessi vika, ef við stoppum hana eftir leikinn á Wembley, þá var þetta besta vika lífs míns. Það verður að segjast eins og er'
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta var algjör draumur'
'Þetta var algjör draumur'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Fyrsta sem ég sá var náttúrulega R-ið í BJARKA(R)SON'
'Fyrsta sem ég sá var náttúrulega R-ið í BJARKA(R)SON'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hann var ekki nógu sáttur heldur'
'Hann var ekki nógu sáttur heldur'
Mynd: Jón Örvar Arason
'Með U21, undir stjórn Davíðs Snorra, spilaði ég vængbakvörðinn'
'Með U21, undir stjórn Davíðs Snorra, spilaði ég vængbakvörðinn'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við sem lið eigum að gera betur og vera klárari.'
'Við sem lið eigum að gera betur og vera klárari.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Reynslan í Sverri og dugnaðurinn í Mikael hjálpuðu mér gríðarlega að skila fínustu frammistöðu'
'Reynslan í Sverri og dugnaðurinn í Mikael hjálpuðu mér gríðarlega að skila fínustu frammistöðu'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég fékk að vita rétt áður að ég væri í hópnum," sagði Bjarki Steinn Bjarkason í viðtali við Fótbolta.net. Bjarki er sem stendur á Tenerife.

„Það var draumi líkast að fá þetta tækifæri á að spila á Wembley og í Hollandi á móti stærstu þjóðum í heimi. Það gerist ekki stærra. Ég gerði allt til að njóta mín á þessu sviði."

Bjarki Steinn átti gott tímabil með Venezia og sérstaklega góðan endasprett. Hann hafði fyrir síðustu tvo vináttuleiki einungis spilað tvo landsleiki, leiki gegn Sádi-Arabíu og Suður Kóreu í nóvember 2022. Þó að þeir leikir hafi verið utan landsleikjaglugga var ekkert mál fyrir Bjarka að fá að fara í þá leiki. Hann var ekki inni í myndinni hjá Venezia á þeim tíma og fékk að fara með landsliðinu. Þá leiki spilaði hann á kantinum.

Geðveik tilfinning að fá kallið
Varstu síðustu dagana fyrir valið á hópnum að hugsa hvort þú yrðir með?

„Það er alltaf markmiðið að spila fyrir íslenska landsliðið og þegar maður er að spila, og spila vel, með sínu félagsliði þá er alltaf möguleiki á því að vera valinn. Ég get alveg viðurkennt það að ég var að vonast eftir kallinu. Svo kom það og það var geðveik tilfinning."

Ertu búinn að vera svekktur í síðustu verkefnum að fá ekki kallið?

„Þetta er alltaf markmiðið og manni langar alltaf að fá kallið. En þegar maður fær það ekki, þá bara gerir maður meira og veit af næsta glugga. Einbeitingin er á því að gera sitt fyrir félagsliðið og svo kemur landsliðið í kjölfarið ef maður spilar vel. Ég komst á gott skrið undir lok tímabilsins og það kláraðist rosalega vel fyrir mig."

Tenerife eða Wembley? Eða bara bæði
Fjölskylda Bjarka hafði planað með miklum fyrirvara að fara til Tenerife eftir að tímabilinu á Ítalíu lyki. Bjarki var þó alltaf sjálfur með það bakvið eyrað að það væri landsliðsverkefni í lok tímabilsins og því fóru hans plön ekki mikið úr skorðum þegar kallið kom.

„Ég var alltaf með landsliðsverkefnið á bakvið eyrað, að það væri möguleiki. Ég mætti svo hingað til Tenerife eftir Hollandsleikinn, klára ferðina með fjölskyldunni og fer svo með heim til Íslands. Þetta var yndislegt og nú er bara að njóta."

Áttaði sig fyrst á því þegar hann mætti á Wembley
Hvernig var æfingavikan fram að leiknum á Wembley?

„Það eru alltaf 'drillað' aðeins á æfingum og maður fær einhverjar hugmyndir. Þá er bara ennþá meiri fókus, það 'kickar' ekki alveg inn að maður væri að fara spila á Wembley fyrr en maður mætti á svæðið til að æfa daginn fyrir leik. Þá sá maður hvað þetta var stórt. Þetta var algjör draumur og ég var extra klár í þennan leik, vel peppaður."

Allir að gefa fimmur og mjög peppaðir
Fyrir utan markið og sigurinn, er eitthvað augnablik sem stendur upp úr frá Wembley?

„Það eru stærstu tvö augnablikin. Það var toppurinn. Mér fannst við vera vel peppaðir þegar við gerðum vel í vörninni. Þegar við vorum að komast fyrir fyrirgjafir þá voru allir saman í þessu, allir að gefa fimmur og ég fílaði það fáránlega mikið. Að sjálfsögðu var markið hjá Jóni Degi frábært og frábært augnablik þegar lokaflautið kom."

Aðeins hljóðlátara en við var búist
Séð í sjónvarpinu þá virtist stemningin á Wembley ekki vera mikil. Það heyrðist á tímapunktum einungis í íslensku stuðningsfólkinu. Var hljóðlátt á vellinum?

„Ég vissi eiginlega ekki við hverju mátti búast. Ég vissi að það yrðu 82 þúsund manns, en þegar þú segir það, þá var aðeins hljóðlátara en ég bjóst við. Ég var bara einbeittur á leikinn og þegar ég er kominn inn á völlinn þá er ég svo mikið í 'zone-inu'. Ég var voða lítið að pæla í stemningunni."

Alveg sama hvar hann spilar
Það óvæntasta í byrjunarliðinu fyrir leikinn gegn Englandi var að Bjarki væri í liðinu og að hann væri í hægri bakverði. Varstu meðvitaður um að það væri verið að velja þig sem hægri bakvörð?

„Já og nei. Með U21 undir stjórn Davíðs Snorra (aðstoðarþjálfara A-landsliðsins) spilaði ég vængbakvörðinn. Þegar ég sé hópinn listaðan upp, hvernig þessu var raðað, þá var ég alveg með hugmyndir um það. Á fyrstu æfingu sé ég að ég sé hugsaður þar og er bara klár í það. Ég er klár í hvað sem er, svo lengi sem ég spila þá er ég mjög ánægður. Markmiðið er alltaf að spila fyrir íslenska landsliðið, hvort sem það er í bakverðinum eða einhvers staðar annars staðar, mér er alveg sama."

Fyrsti leikurinn sem hægri bakvörður
Hafðir þú spilað í hægri bakverði áður?

„Nei, ég held nefnilega ekki, held að leikurinn gegn Englandi hafi verið fyrsti leikurinn í hægri bakverði í fjögurra manna línu. Maður er fljótur að læra og koma sér inn í leikinn. Hægri vængbakvörðurinn er ekkert endilega ósvipað. Í einhverjum augnablikum í leikjum þá er maður alveg lágt á vellinum að verjast og ég kann það alveg. Þannig það var ekkert bilað vesen."

Bjarki var með Sverri Inga Ingason við hliðina á sér í vörninni og fyrir framan hann var Mikael Anderson.

„Það var frábært, reynslan í Sverri og dugnaðurinn í Mikael hjálpuðu mér gríðarlega að skila fínustu frammistöðu og mér leið mjög vel í kringum þá á vellinum."

Kann betur að meta varnarleik í dag
Þykir þér vænna um hægri bakvarðarstöðuna núna eftir leikinn á Wembley?

„Já, það má alveg segja það. Maður kann að meta þessa stöðu betur, fannst fáránlega gaman að spila þessa stöðu á Wembley. Við unnum leikinn, vörðumst svakalega vel. Það var miklu skemmtilegra að verjast heldur en áður. Þegar ég var yngri vildi ég vera kantari og vildi ekki sjá bakvarðarstöðuna. Í dag er þetta gjörsamlega breytt, er alveg sama hvar ég er. Ég kann að meta þessa stöðu betur í dag."

Óraunverulegt dæmi
Hvernig var þessi stund inni í klefa að fagna sigri á Wembley?

„Þetta var voða óraunverulegt dæmi. Við vorum að vinna á Wembley, vorum smá hissa en samt ekki. Við fögnuðum hrikalega vel, þetta var bara geðveik stund."

Englendingar komu smá á óvart
Var eitthvað óvænt hjá Englendingunum?

„Á einhverjum augnablikum fannst mér þeir ekki vera 100%. Ég eiginlega trúi því ekki miðað við þetta lið sem þeir eru með. Þeir fóru ekki eins öflugt í návígi og ég hefði búist við og þeir virtust aðeins vera passa sig fyrir EM. Það kom smá á óvart."

Var ekki sáttur þegar hann sá nafnið á treyjunni
Hvað hugsarðu þegar þú sérð treyjuna þína fyrir leik?

„Fyrsta sem ég sá var náttúrulega R-ið í BJARKA(R)SON. Ég var ekki alveg nógu sáttur við það, viðurkenni það. Ég kommentaði aðeins á það, en það var ekkert hægt að gera í því, bara áfram gakk. Svo átti ég þennan fínast leik og var því svo sem alveg sama eftir á. Þetta var svolítið fyndið."

„Að labba inn í klefa og sjá allar treyjurnar klárar fyrir leik, það kom upp svakalegt stolt að sjá treyju númer 15. Hrikalega stoltur og mikill heiður."


Faðir Bjarka Steins er Bjarki Sigurðsson sem var valinn í heimsliðið í handbolta á sínum tíma. Er pabbi þinn búinn að tjá sig um nafnið á treyjunni?

„Já, hann var ekki nógu sáttur heldur," sagði Bjarki Steinn og hló. „Hann kommentaði alveg á þetta. Þetta var svo græjað fyrir seinni leikinn, ekkert auka R á hvítu treyjunni. Þetta var lagað."

Þurftu ekki að tapa 4-0
Hvað tekur þú út úr Hollandsleiknum?

„Lappirnar voru smá þungar. Mér fannst menn ekkert saddir eftir einn sigur á Wembley, þó að það sé hrikalega stórt, við vorum alveg klárir. Þeir voru beinskeyttir og hlupu á bakvið okkur, tímasettu það vel og náðu að valda okkur vandræðum. Þeir spiluðu vel og við áttum ekki jafngóðan dag. Það var smá högg að tapa 4-0, þurftum alls ekki að gera það. Við sem lið eigum að gera betur og vera klárari."

Þetta er bara fótbolti
Var stress að spila svona stóra leiki?

„Já, það er alltaf pínu stress, get alveg viðurkennt það. Svo þegar maður er kominn inn á völlinn þá er þetta bara fótbolti, þó það sé kannski skrítið að segja það. Ég geri þetta í hverri viku þannig að stressið fer fljótt eftir að leikurinn byrjar."

Hefði helst viljað mæta Grealish
Spáirðu mikið í það að þú sért að mæta Anthony Gordon og Cole Palmer sem eru öflugir úrvalsdeildarleikmenn?

„Já, ég geri það. Ég spáði alveg í því fyrir leik hvort ég væri að fá Gordon eða Jack Grealish á mig. Svo var Grealish ekki með í hópnum. Ég hefði helst viljað fá Grealish á mig, er ekki eins beinskeyttur og Gordon. Gordon náði að gera mér lífið erfitt fyrstu tíu mínúturnar en svo kom ég mér í takt við leikinn. Þegar leikurinn hefst þá ertu ekkert að spá í því að þetta sé Anthony Gordon í Newcastle. Þetta er bara fótbolti, maður spáir meira í því fyrir leik."

Draumi líkast
Venezia fór upp í gegnum umspilið í ítölsku B-deildinni fyrir rúmri viku síðan. Daginn eftir kom Bjarki til móts við landsliðið og fimm dögum eftir að hafa komist í efstu deild á Ítalíu vann Bjarki sigur á Wembley. Er hægt að skrifa eitthvað betra handrit?

„Nei, í rauninni ekki. Geðveikt tímabil að baki með Venezia og vorum hrikalega góðir í þessu umspili. Að klára þetta á heimavelli var draumi líkast. Við vorum mættir í Serie A, svo mæti ég í landsliðið og við vinnum á Wembley. Þessi vika, ef við stoppum hana eftir leikinn á Wembley, þá var þetta besta vika lífs míns. Það verður að segjast eins og er."

„Þetta var alveg óraunverulegt dæmi. Ég fór yfir þetta eftir á, var að fara í Serie A og við vorum að vinna á Wembley. Það gerist ekkert á hverjum degi. Ég fagnaði rosalega vel og náði að njóta augnabliksins,"
sagði Bjarki.
Athugasemdir
banner
banner