Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   þri 13. september 2022 17:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Danmörk gæti hugsanlega reynt að stela Kristian Nökkva af okkur
Kristian Nökkvi Hlynsson.
Kristian Nökkvi Hlynsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gríðarlega efnilegur leikmaður.
Gríðarlega efnilegur leikmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristian Nökkvi Hlynsson er líklega efnilegasti fótboltamaður landsins um þessar mundir.

Hann leikur með Ajax í Hollandi og er gríðarlega mikilvægur hlekkur í U21 landsliðinu. Hann var í hópi Ajax sem ferðaðist í leikinn gegn Liverpool í Meistaradeildinni í kvöld.

Hingað til hefur Kristian Nökkvi einungis spilað með yngri landsliðum Íslands en það gæti verið að önnur þjóð muni reyna að bera kvíurnar í þennan efnilega leikmann.

Kristian er nefnilega fæddur í Danmörku og bjó þar fyrstu ár ævi sinnar. Maður fær ekki sjálfkrafa danskan ríkisborgararétt við fæðingu í Danmörku ef þú átt erlenda foreldra, en hann er með þessa tengingu við landið og gæti danska fótboltasambandið mögulega einhvern veginn reynt að nýta sér hana. Það er ekki fordæmalaust að fótboltamönnum sé veittur ríkisborgararéttur í landi sem þeir fæddust í - til að spila fyrir og hjálpa því landsliði.

Má nefna Roman Neustädter í því samhengi en hann fæddist í Sovétríkjunum og ólst upp í Þýskalandi. Svo gáfu Rússar honum ríkisborgararétt þrátt fyrir að hann hefði nánast ekkert búið í landinu. Spilar hann því með rússneska landsliðinu núna.

Í regluverki FIFA er talað um að leikmenn geti spilað fyrir annað landslið ef þeir eru fæddir í því landi sem þeir vilja spila fyrir. Það er þó einnig tekið fram að leikmenn þurfi að vera með vegabréf - og þannig ríkisborgararétt - frá því landi.

Kristian er vissulega fæddur í Danmörku og það er tenging við landið, en danska fótboltasambandið þarf að sjá til þess að hann sé með danskt vegabréf ef þeir vilja að hann spili fyrir þeirra lið; fótboltasambandið þarf að ræða við stjórnvöld um það.

Það skal tekið fram að þetta eru einungis pælingar, en það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að Kristian muni spila fyrir Danmörku - jafnvel þó Danir myndu reyna sitt besta til að fá hann yfir. Hann hefur bara spilað fyrir yngri landslið Íslands til þessa og foreldrar hans eru Íslendingar. Síðar í þessum mánuði verður hann eflaust í U21 landsliðshópnum sem leikur við Tékkland í umspili um að komast í lokakeppni EM. Kristian er búinn að vera frábær í undankeppninni.

Þess má geta að um leið og Kristian spilar þrjá keppnisleiki með íslenska A-landsliðinu þá getur hann ekki spilað fyrir annað landslið.

Fréttin var uppfærð 17:41.
Athugasemdir
banner
banner