Belginn Patrick De Wilde er tekinn við meistaraflokki Völsungs en hann hefur komið ótrúlega víða við á þjálfaraferlinum.
De Wilde er svo sannarlega heimsborgari. Hann þjálfaði síðast kvennalandslið Nepal en þar áður var hann við stjórnvölinn hjá karlalandsliðum Sómalíu og Rúanda í Afríku.
Hann hefur meðal annars starfað sem aðstoðarþjálfari hjá kínverska U23 landsliðinu, ungverska landsliðinu, alsírska landsliðinu og íranska stórveldinu Tractor SC.
Hann var um tíma þjálfari Kortrijk í Belgíu, auk þess að starfa sem akademíuþjálfari og njósnari hjá RB Salzburg. Þar að auki hefur hann verið tæknistjóri hjá litháíska landsliðinu og Raja Casablanca í Marokkó.
De Wilde er augljóslega mikill ævintýramaður og ætlar að reyna fyrir sér á Húsavík.
Völsungur leikur í Lengjudeildinni og endaði í sjöunda sæti í ár með 25 stig úr 22 umferðum.
„Nú byggjum við ofan á þessa gleðitilkynningu og frekari fréttir verða fluttar á kynningarfundi í komandi viku sem auglýstur verður sérstaklega.
ÁFRAM VÖLSUNGUR!!" segir meðal annars í tilkynningu frá Völsungi.
Athugasemdir


