Tveimur fyrstu leikjum dagsins í ítalska boltanum er lokið, þar sem níu leikmenn Lazio gerðu sér lítið fyrir og lögðu Parma að velli.
Lazio sýndi yfirburði í fyrri hálfleik þar til Mattia Zaccagni fékk beint rautt spjald fyrir slæma tæklingu á 42. mínútu.
Tíu leikmenn Lazio spiluðu fínan leik og var staðan markalaus þegar Toma Basic fékk að líta beint rautt spjald á 78. mínútu fyrir að gefa andstæðingi sínum olnbogaskot. Endursýningar sýndu að rauða spjaldið var mögulega full harður dómur, en það fékk að standa.
Níu leikmenn Lazio gerðu sér lítið fyrir og skoruðu fjórum mínútum eftir rauða spjaldið. Tijjani Noslin slapp í gegn eftir varnarmistök og gerði virkilega vel að fara framhjá markverðinum áður en hann kláraði með marki.
Parma tókst ekki að jafna metin svo lokatölur urðu 0-1 fyrir níu leikmenn Lazio, sem eru með 22 stig eftir 15 umferðir. Parma er í fallbaráttu með 14 stig.
Torino lagði þá Cremonese að velli þar sem Nikola Vlasic skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik.
Torino var sterkara liðið og verðskuldaði sigurinn gegn nýliðunum. Þetta var mikilvægur sigur fyrir lærlinga Marco Baroni sem eru núna með 17 stig eftir 15 umferðir, þremur stigum á eftir Cremonese.
Torino 1 - 0 Cremonese
1-0 Nikola Vlasic ('27 )
Parma 0 - 1 Lazio
0-1 Tijjani Noslin ('82 )
Rautt spjald: Mattia Zaccagni, Lazio ('42)
Rautt spjald: Toma Basic, Lazio ('78)
Athugasemdir



