Enzo Maresca þjálfari Chelsea svaraði spurningum eftir sigur gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þetta var fyrsti sigur Chelsea í fimm leikjum í öllum keppnum.
Chelsea var sterkari aðilinn í dag en gestirnir fengu einnig sín færi. Lokatölur urðu þó 2-0 eftir mörk frá Cole Palmer og Malo Gusto.
„Við klúðruðum alltof mörgum góðum færum en yfir heildina litið er ég ánægður með frammistöðuna og að hafa haldið hreinu. Við erum svo ánægðir að fá Cole (Palmer) aftur í liðið, við erum betra lið með hann inná. Hann mun hjálpa okkur mikið," sagði Maresca, sem var svo spurður út í hægri bakverðina Reece James og Malo Gusto sem voru báðir í byrjunarliðinu. Gusto lék í bakvarðarstöðunni og James sem djúpur miðjumaður.
„Þetta eru frábærir leikmenn sem geta spilað bæði sem bakverðir og miðjumenn. Ég er mjög ánægður með Malo (Gusto), hann skoraði og lagði upp. Hann nýtti tækifærið sitt.
„Við gerðum vel að halda hreinu og það er allt liðið sem á heiðurinn á góðum varnarleik. Joao Pedro og Alejandro Garnacho voru til dæmis frábærir í pressunni."
Maresca talaði svo um að Palmer verður líklegast ekki með gegn Cardiff í deildabikarnum. Hann vill ekki missa lykilmanninn aftur í meiðsli.
„Þetta er mikilvægur og kærkominn sigur fyrir okkur."
Chelsea er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 16 umferðir.
Athugasemdir


