„Maður er alltaf að leita en það er ekkert fast í hendi," segir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH, um mögulegar leikmannastyrkingar.
FH hefur misst tvo sterka pósta að undanförnu þar sem Logi Hrafn Róbertsson og Ólafur Guðmundsson hafa báðir farið í atvinnumennsku. Birkir Valur Jónsson og Bragi Karl Bjarkason hafa komið til félagsins í vetur en annars hefur verið rólegt yfir í Kaplakrika þegar horft er í leikmannamarkaðinn.
FH hefur misst tvo sterka pósta að undanförnu þar sem Logi Hrafn Róbertsson og Ólafur Guðmundsson hafa báðir farið í atvinnumennsku. Birkir Valur Jónsson og Bragi Karl Bjarkason hafa komið til félagsins í vetur en annars hefur verið rólegt yfir í Kaplakrika þegar horft er í leikmannamarkaðinn.
„Við erum búnir að missa tvo lykilmenn í Loga og Óla Guðmunds. Við erum að skoða okkar mál en erum ekkert að flýta okkur neitt. Við erum með fullt af ungum og efnilegum strákum sem eru margir tilbúnir að taka næsta skref. Við þurfum að sjá til þess að það sé pláss fyrir þá til að geta tekið það," segir Davíð.
„Ef við finnum réttu mennina sem passa inn í það sem við erum að reyna að gera, þá munum við reyna að láta það ganga upp. En við erum alveg slakir eins og staðan er núna."
Kjartan Kári orðaður við Víking
Kantmaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er undir smásjá Víkings. Kjartan, sem er 21 árs, átti flott tímabil með FH og hefur einnig verið orðaður við félög erlendis.
Það er væntanlega ekki leikmaður sem þið viljið selja?
„Nei, en það er eins með hann og aðra að ef rétt tilboð kemur þá skoðum við það. Það er þannig í mínum bókum að það eru allir til sölu fyrir rétt verð. Það á eftir að koma í ljós en það er á hreinu að Kjartan Kári er einn af okkar allra mikilvægustu leikmönnum," segir Davíð.
„Hann var frábær í fyrra og ég efast ekki um að hann verði enn betri í ár."
Vilja vera með ungt og spennandi lið
Fjárhagsstaðan er erfið hjá FH-ingum og það hefur auðvitað áhrif á félagið á leikmannamarkaðnum.
„Auðvitað hefur þetta áhrif. Það er ekkert launungarmál að staðan er erfið hjá okkur og þröng. En þó svo að staðan væri betri fjárhagslega þá er ég ekkert viss um að við værum að drífa okkur neitt rosalega mikið. Við erum að reyna að keyra á ákveðna stefnu þar sem við viljum vera með ungt og spennandi lið, með unga stráka sem við höfum alið upp sjálfir. Þannig viljum við hafa liðið okkar og þannig teljum við að til lengri tíma getum við verið sjálfbærir og haldið út fótboltaliði sem FH-ingar geta verið stoltir af," segir Davíð og bætti við:
„Það (fjárhagsstaðan) hefur engin brjáluð áhrif þannig séð, einhver áhrif en ekki úrslitaáhrif."
Stefnan hjá FH næsta sumar verði að vera í efri helmingnum þegar mótið skiptist og taka svo stöðuna eftir það.
Athugasemdir