Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fim 14. mars 2024 09:54
Elvar Geir Magnússon
Gylfi í Val (Staðfest) - Gerði tveggja ára samning
Gylfi Þór Sigurðsson og Arnar Grétarsson á æfingu í Montecastillo á Spáni í morgun.
Gylfi Þór Sigurðsson og Arnar Grétarsson á æfingu í Montecastillo á Spáni í morgun.
Mynd: Styrmir Þór Bragason
Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Vals.
Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Vals.
Mynd: Styrmir Þór Bragason
Gylfi er markahæsti landsliðsmaður Íslands.
Gylfi er markahæsti landsliðsmaður Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Val en þetta kemur fram í tilkynningu frá Hlíðarendafélaginu.

Tilkynning Vals:
Knattspyrnudeild Vals er afar stolt af því að kynna Gylfa Þór Sigurðsson sem nýjan leikmann félagsins. Gylfi gerir tveggja ára samning sem staðfestur var með undirskrift í æfingaferð félagsins í Montecastillo á Spáni nú í morgun.

Leikstíll sem hentar mér
„Ég er afskaplega ánægður með þá ákvörðun mína að ganga til liðs við Val sem er að mínu mati fyrirmyndar félag. Ég tel að leikstíll minn henti vel þeim fótbolta sem Valsliðið vill spila eftir að hafa æft með þeim að undanförnu. Mér hefur liðið vel frá því ég mætti á mína fyrstu æfingu og hér verður gott að vera,“ segir Gylfi Þór.

Gylfi segir ákveðin atriði hafa vegið þyngra en önnur í þeirri ákvörðun sinni að ganga til liðs við Val.

„Þegar ég var búinn að ákveða að koma heim fannst mér mikilvægt að velja rétt. Umhverfið sem er boðið upp á hjá Val er mjög gott og á pari við það sem best gerist á norðurlöndunum. Svo hef ég bara góða tilfinningu fyrir klúbbnum og maður finnur að hér er mikill metnaður.“

Mættur til að vinna titil
Gylfi hefur aldrei leikið með meistaraflokki hér á landi en hann fór 15 ára gamall til Reading á Englandi. Þremur árum síðar lék hann sinn fyrsta leik fyrir aðallið félagsins og sló eftirminnilega í gegn. Gylfi spilaði síðan með Hoffenheim í Þýskalandi áður en hann gekk til liðs við Swansea.

Með þeim lék hann í ensku úrvalsdeildinni en hann lék einnig fyrir Tottenham Hotspurs og Everton á Englandi.

Þá hefur Gylfi verið lykilmaður í sögulegum árangri íslenska liðsins og leikið bæði á lokakeppni Evrópu- og heimsmeistaramótsins. Þrátt fyrir þennan magnaða feril segist Gylfi alls ekki vera kominn heim til Íslands til þess að hafa það eitthvað kósý.

„Alls ekki. Ég hef aldrei orðið íslandsmeistari og miðað við mannskapinn hjá Val þá tel ég ekkert því til fyrirstöðu að við berjumst um titilinn. Ég þekki nokkra mjög vel í liðinu og er að kynnast öðrum betur. Þetta er flott blanda af reynslumiklum mönnum og ungum og efnilegum strákum sem ég hlakka til þess að spila með,“ segir Gylfi Þór.

Knattspyrnudeild Vals býður Gylfa Þór Sigurðsson hjartanlega velkominn til Vals og hlakkar til þess að fylgjast með honum á vellinum í sumar.

Arnar Grétarsson þjálfari Vals:
„Þetta eru auðvitað frábærar fréttir fyrir okkur og undirstrikar þann metnað sem stjórn Knattspyrnudeildar Vals hefur. Miðað við standið á Gylfa núna og það sem hann hefur verið að sýna okkur á æfingum þá verður ekki leiðinlegt að mæta á leiki hjá okkur í sumar. Hópurinn er orðinn mjög þéttur og góður og við höfum æft vel. Getum ekki beðið eftir því að byrja þetta," segir Arnar.

Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals:
„Það er mikilvægt að hafa í huga að Gylfi Þór er að velja Val vegna þess að hann hefur trú á liðinu og þeim metnaði og umgjörð sem einkennir okkur. Þetta eru ekki hlutir sem verða til á einni nóttu. Við höfum síðustu ár lagt töluvert á okkur til þess að búa til þessa umgjörð og metnað vegna þess að við viljum að leikmenn eins og Gylfi velji Val. Það hvetur okkar ungu iðkendur og setur ákveðinn standard á sama tíma og það hjálpar okkar liðum að vera í fremstu röð," segir Börkur.
Athugasemdir
banner
banner
banner