Árni Freyr Guðnason þjálfari Fylkis var ánægður með úrslit kvöldsins eftir að liðið hans vann KR 2-1 í undanúrslitum Lengjubikarsins.
Lestu um leikinn: Fylkir 2 - 1 KR
„Ég er mjög ánægður með að hafa unnið. Mér fannst fyrri hálfleikur ekkert sérstakur hjá okkur en seinni hálfleikur mjög góður. Við sköpuðum mikið af færum og stálum þessu svolítið í lokin, í mjög jöfnum leik. Gott að vinna."
Fylkismenn féllu úr Bestu deildinni á síðasta tímabili en KR var fjórða Bestu deildar liðið sem Fylkir spilar við í Lengjubikarnum. Það er því mikið styrkleikamerki fyrir þá að komast svona langt, gegn sterkum andstæðingum.
„Við töluðum um það strax þegar ég tók við, að við ætluðum að halda Bestu deildar standard. Við gerum það með því að spila á móti þessum liðum, standa í þeim og vinna þau. Þannig ég er bara mjög ánægður með þetta."
Hinn undanúrslitaleikurinn verður á þriðjudaginn þar sem Valur og ÍR munu mætast. Árni stýrði ÍR á síðasta tímabili, því væri mjög áhugavert ef liðið myndu mætast í úrslitaleiknum.
„Ætli ég þurfi ekki að segja að ég haldi alltaf með þeim nema á móti okkur í sumar. Það verður bara gaman að spila við Jóa og ÍR-ingana. Ég vona að þeir vinni."
Viðbrögðin frá stuðningsmönnum ÍR voru ekkert sérstaklega hlý í garð Árna þegar hann fór frá félaginu. Það er líklegt að hann fái áhugaverðar móttökur þegar Fylkir mætir ÍR næst.
„Það verður örugglega einhver smá læti, en þetta hlýtur að jafna sig einhvertíman."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.