Breiðablik og KR voru í pottinum þegar dregið var í 1. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar núna rétt áðan. Breiðablik var í efri styrkleikaflokki en KR í neðri.
Breiðablik, sem gerði afskaplega vel í þessari keppni í fyrra, mun mæta Santa Coloma frá Andorra. Fyrri leikurinn fer fram á Íslandi.
Valur mætti Santa Coloma í forkeppni Evrópudeildarinnar árið 2019 og komst þá áfram, samanlagt 3-1.
Liðin sem Blikar gátu dregist á móti voru Víkingur frá Götu í Færeyjum, Tre Fiori frá San Marínó, Sligo Rovers frá Írlandi, Cliftonville frá Norður-Írlandi og Santa Coloma.
KR-ingar munu mæta Pogoń Szczecin frá Póllandi og fer fyrri leikurinn fram í Póllandi. Erfitt verkefni sem KR-ingar fá.
Lærisveinar Rúnar Kristinssonar gátu dregist gegn Flora Tallinn frá Eistlandi, Crusaders frá Norður-Írlandi, HB Þórshöfn frá Færeyjum, Pogoń Szczecin og Riga frá Lettlandi.
Leikirnir fara fram 7. og 14. júlí næstkomandi.
Sjá einnig:
Meistaradeildin: Víkingar mæta Malmö ef þeir vinna umspilið
Athugasemdir