Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   sun 14. júlí 2024 16:31
Ívan Guðjón Baldursson
Svíþjóð: Valgeir skoraði í ótrúlegu tapi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valgeir Lunddal Friðriksson var í byrjunarliði BK Häcken sem tók á móti Elfsborg í sænska boltanum í dag og úr varð hörkuslagur þar sem færanýtingin var ótrúlega góð. Eggert Aron Guðmundsson var í byrjunarliði Elfsborg og kom Andri Fannar Baldursson inn af bekknum í seinni hálfleik.

Häcken tók forystuna í fyrri hálfleik en Elfsborg tókst að jafna skömmu síðar, áður en Valgeir náði forystunni á ný fyrir heimamenn í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Staðan var því 2-1 fyrir Häcken í leikhlé, þar sem þrjú mörk voru skoruð úr fimm marktilraunum.

Mögnuð færanýting hélt áfram í seinni hálfleik, þar sem leikmönnum tókst að skora fimm mörk úr átta marktilraunum til viðbótar. Alls ekki dagur markvarðanna í þessum slag.

Í seinni hálfleiknum var Terry Yegbe, 22 ára varnarmaður frá Gana, ein af hetjum Elfsborg. Hann skoraði jöfnunarmark fyrir gestina í upphafi síðari hálfleiks, áður en heimamenn í liði Häcken tóku forystuna í þriðja sinn.

Það var svo á lokamínútum leiksins sem Yegbe var mættur aftur til að gera þriðja jöfnunarmark Elfsborg í leiknum og var staðan 3-3 á 90. mínútu.

Leikurinn var þó ekki búinn. Fjórum mínútum var bætt við og tókst varamanninum Per Frick að gera ótrúlega dramatískt mark fyrir Elfsborg í uppbótartíma.

Heimamenn lögðu allt í sóknina eftir að hafa lent undir í fyrsta sinn í leiknum en þeir fengu það í bakið þegar Arber Zeneli gulltryggði sigur gestanna á 95. mínútu. Lokatölur urðu því 3-5, þar sem 8 mörk voru skoruð úr 13 marktilraunum.

Häcken er áfram í fjórða sæti eftir þetta tap, með 23 stig eftir 15 umferðir - einu stigi fyrir ofan Elfsborg.

Þá voru Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri SIgurgeirsson báðir í byrjunarliði IFK Norrköping sem tapaði botnslagnum á útivelli gegn Västerås.

Norrköping er að eiga hörmulegt tímabil og er liðið aðeins með 11 stig eftir 14 umferðir, þremur stigum frá öruggu sæti í efstu deild sænska boltans.

Hacken 3 - 5 Elfsborg
1-0 S. Gustafson ('22)
1-1 S. Holmen ('26)
2-1 Valgeir Lunddal Friðriksson ('45+2)
2-2 T. Yegbe ('48)
3-2 A. Youssef ('66)
3-3 T. Yegbe ('90)
3-4 P. Frick ('92)
3-5 A. Zeneli ('95)

Vasteras 2 - 1 Norrkoping
1-0 A. Boudah ('52)
1-1 V. Hammershoy-Mistrati ('55)
2-1 H. Magnusson ('90)
Athugasemdir