Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 14. nóvember 2024 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Var með það markmið í lífinu en bjóst ekki alveg við símtalinu strax
,,Núna hefst nýr kafli"
Matthías Guðmundsson.
Matthías Guðmundsson.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Matti þekkir býsna vel til hjá Val.
Matti þekkir býsna vel til hjá Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur stefnir á alla titla.
Valur stefnir á alla titla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fékk góðan skóla í Gróttu.
Fékk góðan skóla í Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Pétur Pétursson og Matthías Guðmundsson.
Pétur Pétursson og Matthías Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er bara frábært að vera mættur aftur á Hlíðarenda. Erfitt að lýsa því, eiginlega bara stórkostlegt," segir Matthías Guðmundsson í samtali við Fótbolta.net.

Matthías var nýverið ráðinn þjálfari kvennaliðs Vals ásamt Kristjáni Guðmundssyni. Þeir munu stýra liðinu saman og vonast til að koma því aftur á toppinn í íslenskum fótbolta.

Matthías þarf ekki að kynna fyrir Valsmönnum enda lék hann með félaginu nánast allan sinn feril og hóf þjálfaraferilinn þar líka. Hann náði eftirtektarverðum árangri með 2. flokk félagsins og varð síðar aðstoðarmaður Péturs Péturssonar áður en hann tók við liði Gróttu fyrir síðasta tímabil þar sem hann gerði frábæra hluti.

„Ég get ekki sagt að það hafi verið langur aðdragandi. Eiginlega bara allt á ljóshraða," segir Matthías. „Boltinn byrjaði að rúlla eftir að Pétur komst að starfslokum. Svo gerðist allt ótrúlega hratt. Maður var byrjaður í sínu með Gróttu en svona er fótboltinn; maður er bara kominn á annan stað."

Átti sér það markmið
Matthías segir að það sé ákveðinn draumur að rætast, að fá að taka við þessu starfi.

„Maður á sér alveg markmið í lífinu. Eitt af þeim markmiðum var að taka við Val. Ég verð að viðurkenna að ég var að horfa í að það myndi kannski gerast ári seinna, eða tveimur árum seinna. Eitthvað þannig. Þetta var markmið og draumur," segir hann.

„Mér brá kannski bara aðeins þegar símtalið kom. Valur hafði samband við Gróttu um að fá leyfi til að tala við mig. Þá fæ ég símtal frá Gróttu og það kom flatt upp á mann. Ég var staddur í París í fríi. Þetta var sjokk og svo þróaðist það út í að vera spennandi."

Þekki hvernig hann á að vera
Matti þekkir kjarnann í hópnum vel eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari fyrir stuttu síðan. Hann þekkir félagið aðallega vel og veit hvað það stendur fyrir.

„Mér finnst ég þekkja kjarna leikmannahópsins vel. Það hefur eitthvað breyst. En burtséð frá því þekki ég rosalega vel þarna inn. Ég þekki hvernig hlutirnir voru gerðir, þeir voru gerðir stórkostlega og ég tók þátt í því. Ég þekki 'standardinn' sem við viljum hafa og halda í. Það er ákveðinn 'standard' sem Valur er með og ég þekki hvernig hann á að vera," segir Matthías.

„Við erum að vonast til að halda þessu mikið eins og þetta er. Það verða einhverjar breytingar á leikmannahópnum að sjálfsögðu. Við erum að ræða við fjóra leikmenn sem við viljum halda og eru þeir leikmenn komnir með samning á borðið. Við þurfum að setjast yfir það hvað vantar og sú vinna er aðeins í gangi. Það þarf að pæla þetta vel."

Valur missti af Íslandsmeistaratitlinum í hendur Breiðabliks á liðnu tímabili. Stefnan er auðvitað að ná titlinum aftur til baka.

„Markmið Vals er að stefna alltaf á titla. Valur á að standa fyrir það," segir Matti.

Mér fannst ótrúlega gaman að spila fyrir hann
Matthías kveðst spenntur fyrir því að vinna með Kristjáni, sem er afar reynslumikill þjálfari. Kristján þjálfaði Matta hjá Val fyrir mörgum árum síðan.

„Mér líst frábærlega að vinna með Kristjáni. Ég þekki hann vel og veit hvað hann stendur fyrir. Hann þjálfaði mig og mér fannst ótrúlega gaman að spila fyrir hann. Maður var kominn á seinni árin á sínum ferli og mér fannst hann vera einn af þeim þjálfurum sem kom með einhverjar öðruvísi pælingar. Það höfðaði vel til mín," segir Matti.

„Það er spennandi að vinna með honum. Við erum báðir orðnir ágætlega fullorðnir. Við verðum með skýra verkaskiptingu og erum byrjaðir að ræða það. Það verður allt mjög skýrt hvernig við viljum hafa þetta."

Framtíðin björt á Nesinu
Nýr þjálfari Vals tók við Gróttu fyrir síðasta tímabil og var hársbreidd frá því að fara með liðið upp úr Lengjudeildinni.

„Ég var ekki búinn að fylgjast mikið með Lengjudeildinni áður en ég tók við Gróttu. En maður kýldi á þetta og ég sé heldur betur ekki eftir því. Þetta var ekkert smá skemmtilegt ár og ekkert smá flott lið. Félagið sem slíkt er stórkostlegt og það er frábært fólk á bak við það. Ég gat eiginlega ekki fengið betri skóla," segir Matthías.

Lið Gróttu er mjög ungt og spennandi. Er framtíðin ekki björt á Seltjarnarnesi?

„Framtíðin er björt þar, klárt mál. Grótta er á margan hátt magnað félag ef maður pælir í stærðinni. Það hafa margir leikmenn komist út í atvinnumennsku þaðan og það er mikið vel gert þarna."

Stígur maður í þau fótspor?
Matthías og Kristján eru að taka við Val af goðsögninni Pétri Péturssyni sem gerði magnaða hluti og vann mikinn fjölda titla á Hlíðarenda.

„Ég þekki Pétur náttúrulega vel og á honum rosalega mikið að þakka. Ég veit ekkert hvort maður stígi í þau fótspor. Ætli Pétur sé sigursælasti þjálfari í sögu Vals? Ég þekki ekki alveg tölfræðina. Hann er stórkostleg persóna og frábær þjálfari. Það var líka stórkostlegt að vinna með Öddu, Gísla og öllu teyminu sem var."

„Nú byrjar okkar tími. Nýr og skemmtilegur kafli sem verður gaman að taka þátt í," sagði Matthías að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner