Fótboltaakademía Ascent Soccer í Malaví auglýsir eftir íslenskum kvenkyns þjálfurum og/eða kennurum sem vilja starfa í Malaví til skamms tíma.
Ascent Soccer hefur góð tengsl við Ísland og vill styrkja þau tengsl enn frekar með að fá íslenska gestaþjálfara og kennara til sín.
Ascent hefur tekið þátt í Rey Cup mótinu sem er haldið í Reykjavík og stefnir á aðra heimsókn til Íslands næsta sumar.
„Við erum að leitast eftir metnaðarfullum og orkumiklum þjálfurum og/eða kennurum frá Íslandi til að dvelja í Malaví til skamms tíma. Þetta er einstakt tækifæri til að kynnast Malaví, hjarta Afríku, og leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir kynjajafnrétti í gegnum íþróttir," segir meðal annars í auglýsingu frá Ascent.
Þetta er hluti af samstarfsverkefni sem íslenska sendiráðið í Lílongve styður við. Með samstarfinu vilja sendiráðið og Ascent meðal annars skapa tækifæri fyrir malavískar fótboltakonur og þjálfara til að starfa á Íslandi, auk þess að skapa tækifæri fyrir Íslendinga til að kynnast Ascent nánar eftir að akademían fékk frábærar móttökur hér á landi.
Það er margt áhugavert í gangi í kvennaboltanum í Malaví þrátt fyrir krefjandi aðstæður.
Nánar um starfið.
Athugasemdir



