Sky í Þýskalandi greinir frá því að Þýskalandsmeistarar FC Bayern ætli að setja sig í samband við umboðsteymi Marc Guéhi strax á nýársdag, þegar hann mun eiga innan við sex mánuði eftir af samningi sínum við Crystal Palace.
Guéhi er gríðarlega eftirsóttur miðvörður sem var næstum því búinn að skipta yfir til Liverpool síðasta sumar. Skiptin fóru ekki í gegn því Palace náði ekki að krækja í arftaka fyrir Guéhi áður en sumarglugginn lokaði.
Sky greinir frá því að Max Eberl, yfirmaður fótboltamála hjá Bayern, sé staðráðinn í því að hefja viðræður við Guéhi sem fyrst.
Hjá Bayern myndi Guéhi berjast við Dayot Upamecano, Kim Min-jae, Jonathan Tah og Hiroki Ito um byrjunarliðssæti í hjarta varnarinnar. Þeir eiga allir nóg eftir af sínum samningum nema Upamecano, sem rennur út næsta sumar. Það er forgangsmál hjá Bayern að semja við franska landsliðsmanninn.
Barcelona og Real Madrid eru einnig sögð vera á meðal áhugasamra félaga um Guéhi.
Liverpool hefur einnig áhuga á varnarmanninum en fær ekki tækifæri til að ræða opinberlega við leikmanninn fyrr en í júní. Erlend félög geta sett sig í samband við Guéhi strax í janúar.
Guéhi er 25 ára gamall og búinn að festa sig í sessi í byrjunarliði enska landsliðsins.
Athugasemdir



