Þrír á förum frá Man City - Dalot orðaður við Real Madrid - Framherji West Ham til Milan?
   sun 14. desember 2025 14:13
Elvar Geir Magnússon
Eitthvað mikið að angra Maresca - Stórfurðuleg ummæli á fréttamannafundi
Gæti Maresca látið af störfum?
Gæti Maresca látið af störfum?
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Todd Boehly, eigandi Chelsea.
Todd Boehly, eigandi Chelsea.
Mynd: EPA
Enskir sparkspekingar klóra sér í hausnum eftir ummæli Enzo Maresca, stjóra Chelsea, eftir 2-0 sigurinn gegn Everton í gær. Maresca var augljóslega mjög pirraður og sagði að síðustu tveir sólarhringar fyrir leikinn hefðu verið þeir erfiðustu í starfinu.

Maresca sagði að hann væri ekki að fá nægilegan stuðning í kringum sig, án þess að vilja segja um hvaða aðila hann væri að ræða.

Sigur Chelsea í gær var kærkominn fyrir liðið en það hafði farið í gegnum fjóra leiki í röð án þess að fagna sigri.

Verstu 48 tímarnir
„Ég hrósa leikmönnum, þetta hefur verið flókin vika en þeir eru að gera svo vel. Síðan ég tók við þessu starfi hafa síðustu 48 tímar verið þeir verstu því það eru svo margir sem eru ekki að styðja okkur," sagði Maresca á fréttamannafundi eftir leikinn í gær.

Maresca var spurður nánar út í hvað hann væri að tala um og sagði:

„Verstu 48 klukkutímar síðan ég kom til félagsins því fólk er ekki að styðja mig og liðið," sagði Maresca sem var spurður að því hvort hann væri að tala um stuðningsmenn?

„Ég elska stuðningsmennina og við erum mjög ánægðir með stuðningsmennina."

Hvað er eiginlega í gangi bak við tjöldin?
Það var augljóst að Maresca ætlaði að nota þetta viðtal til að senda skilaboð, en til hverra? Það er ekki ljóst. Mögulega eru það Todd Boehly og félagar, eigendur Chelsea.

Mirror veltir því fyrir sér hvort þessi ummæli séu að fara að rugga bátnum það rækilega að Maresca muni hætta sem stjóri Chelsea. Á vefsíðu miðilsins eru nefndir sex stjórar sem Boehly gæti þá horft til; Zinedine Zidane, Gareth Southgate, Liam Rosenior, Frank Lampard, Brendan Rodgers og Erik ten Hag.

Leikmannahópurinn að standa sig frábærlega
Á þessum merkilega fréttamannafundi þá ræddi Maresca einnig um meiðslavandræði Chelsea og leikbönn. Hann benti á að liðið hefði spilað marga leiki án lykilmannsins Cole Palmer og svo fór Moises Caicedo í þriggja leikja bann.

„Ég hrósa leikmönnum og hópnum því við höfum spilað 16 úrvalsdeildarleiki, fimm án Caicedo, ellefu án Palmer og nánast alla án Liam Delap," segir Maresca.

„Sama hver er að spila þá er þessi hópur að standa sig frábærlega. Leikurinn í dag var fimmti leikurinn á tólf dögum. Við höfum sagt mörgum sinnum að Cole Palmer sé okkar besti leikmaður, við höfum verið án okkar besta leikmanns nánast allt tímabilið. Framlag leikmanna er frábært."

Chelsea er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar en framundan er leikur gegn Cardiff í 8-liða úrslitum deildabikarsins og svo útileikur gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni.


Stöðutaflan England Premier league - karlar
  L U J T ms: mf: mun Stig
1 Arsenal 16 11 3 2 30 10 +20 36
2 Man City 16 11 1 4 38 16 +22 34
3 Aston Villa 16 10 3 3 25 17 +8 33
4 Chelsea 16 8 4 4 27 15 +12 28
5 Crystal Palace 16 7 5 4 20 15 +5 26
6 Liverpool 16 8 2 6 26 24 +2 26
7 Sunderland 16 7 5 4 19 17 +2 26
8 Man Utd 15 7 4 4 26 22 +4 25
9 Everton 16 7 3 6 18 19 -1 24
10 Brighton 16 6 5 5 25 23 +2 23
11 Tottenham 16 6 4 6 25 21 +4 22
12 Newcastle 16 6 4 6 21 20 +1 22
13 Fulham 16 6 2 8 23 26 -3 20
14 Bournemouth 15 5 5 5 21 24 -3 20
15 Brentford 16 6 2 8 22 25 -3 20
16 Nott. Forest 16 5 3 8 17 25 -8 18
17 Leeds 16 4 4 8 20 30 -10 16
18 West Ham 16 3 4 9 19 32 -13 13
19 Burnley 16 3 1 12 18 33 -15 10
20 Wolves 16 0 2 14 9 35 -26 2
Athugasemdir
banner