Þýska landsliðskonan Lena Oberdorf hefur fengið félagaskipti frá Wolfsburg yfir til Bayern München. Hún skiptir á milli tveggja bestu liða Þýskalands.
Í yfirlýsingu Wolfsburg segir að Oberdorf sé að yfirgefa félagið að eigin beiðni. Hún var með riftunarverð í samningi sínum upp á um 400 þúsund evrur, sem Bayern borgar.
Chelsea reyndi einnig að fá Oberdorf í sínar raðir en hún valdi Bayern frekar.
Hjá Bayern verður hún liðsfélagi Glódísar Perlu Viggósdóttur, Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur en sú síðastnefnda er núna á láni hjá Bayer Leverkusen.
Þetta er mikill liðsstyrkur fyrir Bayern en Oberdorf er ein besta fótboltakona í heimi. Oberdorf, sem spilar sem miðjumaður, er algjör lykilmaður fyrir bæði Wolfsburg og þýska landsliðið.
Hún verður formlega leikmaður Bayern í sumar og klárar tímabilið með Wolfsburg þar sem skiptin voru kláruð utan félagaskiptagluggans.
Athugasemdir