Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mið 15. ágúst 2018 14:18
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þarf að gera betur í að vernda þá sem gefa leiknum gildi
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Milos Ozegovic, leikmaður Víkings, tekur Gísla Eyjólfsson niður. Var stálheppinn að fá ekki rautt.
Milos Ozegovic, leikmaður Víkings, tekur Gísla Eyjólfsson niður. Var stálheppinn að fá ekki rautt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dómgæslan á Íslandsmótinu í sumar hefur verið góð. Þegar á heildina er litið er eiginlega merkilegt hversu góð dómgæslan hefur verið miðað við þær miklu breytingar sem hafa verið á dómarahópnum á skömmum tíma.

Dómarahópurinn er of fámennur en fjórir aðaldómarar hafa verið að taka sitt fyrsta alvöru tímabil í Pepsi-deild karla og allir staðið sig vel.

En það er einn hluti sem mér finnst að betur mætti fara í dómgæslunni í Pepsi-deildinni. Mér finnst bestu fótboltamenn deildarinnar, leikmennirnir sem rífa skemmtanagildið upp, ekki fá nægilega vernd.

Í íslensku deildinni eru ekki margir leikmenn sem falla í þennan flokk. Köllum hann töfraflokkinn.

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um hversu margir leikir í deildinni séu tilþrifalitlir. Hversu mikla áherslu flestir þjálfararnir virðast leggja í að liggja til baka og byrja á því að virða það stig sem þeir eru með í höndunum þegar flautað er til leiks.

Ef andstæðingurinn er með leikmann í „töfraflokknum" virðist oft vera í upplegginu að taka hart á þeim leikmanni, kannski skiljanlega, en harkan á það til að keyra fram úr hófi. Það eru oftast þessir leikmenn sem gefa leiknum gildi og auka áhuga. Eitthvað sem er grunngildi þess að deildin standi undir sér.

Þá kemur að þætti dómarana að taka á þessum tilraunum til að „sparka töframanninn úr leik". Í því finnst mér dómararnir of oft bregðast. Alltof oft.

Gísli Eyjólfsson hjá Breiðabliki er gott dæmi um þetta. Það hafa allir löngu misst töluna á hversu oft hefur verið brotið á honum. Og lægðin sem þessi frábæri leikmaður tók á tímabilinu má að mörgu leyti rekja til sífelldra brota á honum. Tilrauna til að taka hann úr leik.

Með réttri dómgæslu geta mennirnir með flauturnar tekið þátt í að gera leiki deildarinnar skemmtilegri og leyft mönnum eins og Hilmari Árna, Óskari Erni, Lennon, Binna bolta, Kristni Frey og Kaj Leo að njóta sínn enn betur. Leikmennina sem fá áhorfendur til að gleyma stað og stund.
Athugasemdir