Casemiro og Estevao skoruðu mörk Brasilíu sem vann Senegal, 2-0, í vináttulandsleik í dag en sigurinn var sögulegur hjá Brasilíumönnum.
Brassar komust yfir á 28. mínútu er sending fór af varnarmanni Senegals og út á Estevao sem skoraði með frábæru innanfótarskoti í fjærhornið.
Casemiro tvöfaldaði forystuna sjö mínútum síðar eftir aukaspyrnu Rodrygo sem fór yfir vörnina og á United-manninn sem afgreiddi boltann í stöng og inn.
Stuðningsmenn Arsenal halda inn í sér andanum eftir þennan leik en varnarmaðurinn Gabriel þurfti að fara af velli vegna meiðsla þegar hálftími var eftir. Hann er einn mikilvægasti leikmaður Arsenal sem situr á toppnum í ensku úrvalsdeildinni.
Sigur Brasilíu á Senegal var sá fyrsti í sögunni en þjóðirnar spiluðu fyrst árið 2019 og enduðu leikar þá 1-1 og síðan mættust þær aftur fyrir tveimur árum þar sem Senegal vann 4-2 sigur.
Athugasemdir





