Undanúrslit FA-bikarsins 1998-99
Ég er nostalgíumaður að eðlisfari og gleymi mér oft í því að rifja upp gamla leiki sem kölluðu fram magnaðar tilfinningar. Það er erfitt að horfa á björtu hliðarnar þegar covid-19 er annars vegar, en samkomubannið hefur gefið mér tækifæri til þess að svala þessari þörf minni svo um munar. Ég ætla að fá að rifja upp einn nokkuð eftirminnilegan í dag.
Dagurinn er 14. apríl 1999; Villa Park í Birmingham borg. Undanúrslit elstu bikarkeppni í heiminum. Sigurvegarinn myndi mæta Newcastle United í úrslitum á Wembley. Það vissu allir að þessi leikur væri hinn raunverulegi úrslitaleikur keppnarinnar - Manchester United og Arsenal.
Arsenal hafði lagt Preston North End, Wolves, Sheffield United og Derby County að velli til þess að komast í undanúrslit. United menn slógu út Middlesbrough, Liverpool, Fulham og Chelsea.
Liðin höfðu mæst fjórum sinnum á tímabilinu fyrir leikinn í bikarnum. Tvívegis hafði Arsenal unnið örugga 3-0 sigra; í Góðgerðarskildinum og svo snemma tímabils í deildinni á Highbury. Á Old Trafford höfðu liðin skilið jöfn, 1-1, í seinni leik liðanna í deildinni. Síðan drógust erkifjendurnir gegn hvorum öðrum í undanúrslitunum í bikarnum.
Þann 11. apríl spiluðu liðin til þrautar og gerðu markalaust jafntefli. Nelson Vivas, varnarmaður Arsenal, fékk rautt spjald og Roy Keane skoraði mark sem leit út fyrir að vera fullkomlega löglegt. Aðstoðardómari leiksins var á öðru máli og spila skyldi annan leik þremur dögum síðar. Guði sé lof.
Byrjunarliðin:
Arsenal: Seaman, Dixon, Winterburn, Vieira, Adams, Ljungberg, Anelka, Bergkamp, Keown, Parlour, Petit.
Varamenn: Bould, Vivas, Overmars, Lukic, Kanu.
Man Utd: Schmeichel, G. Neville, P. Neville, Johnsen, Stam, Beckham, Butt, Keane, Blomqvist, Solskjaer, Sheringham.
Varamenn: Van Der Gouw, Yorke, Irwin, Scholes, Giggs.
Dómari: David Elleray
Leikurinn hófst og var í miklu jafnvægi þar til á 18. mínútu þegar að David Beckham var fyrstur á dauðann bolta á miðjunni. Hann óð upp völlinn í átt að marki Arsenal og átti gott þríhyrningsspil við Teddy Sheringham áður en hann þrumaði boltanum fram hjá David Seaman af rúmlega 25 metra færi. Staðan 1-0 og Arsenal hafði fengið á sig mark í fyrsta skipti í 690 mínútur!
Eftir mark Beckham opnaðist leikurinn aðeins og Peter Schmeichel varði vel frá Dennis Bergkamp og Teddy Sheringham komst í tvígang nálægt því að tvöfalda forystu United. En eftir það varð leikurinn grófari og tæklingarnar harðari. Emmanuel Petit komst nálægt því að jafna leikinn rétt fyrir hálfleik en Peter Schmeichel var fljótur að átta sig og stöðvaði Frakkann.
Hálfleiksræða Arsene Wenger virtist ekki skila sér því að Man Utd var miklu líklegra til þess að bæta við forystuna, frekar en að Arsenal næði inn jöfnunarmarki. Ole Gunnar Solskjær og Beckham komust báðir í góð færi en Seaman sá við þeim. "Enter" Dennis Bergkamp. Á 69. mínútu fékk Hollendingurinn fljúgandi boltann langt fyrir utan teig United og lét vaða. Boltinn hafði viðkomu í Jaap Stam og í netið. Schmeichel átti ekki séns; 1-1!
Sheringham klúðraði dauðafæri strax í kjölfar jöfnunarmarksins. Á 73. mínútu sprakk svo Arsenal hluti stúkunnar á Villa Park. Nicolas Anelka náði frákastinu eftir að Schmeichel hafði misst fast skot Bergkamp, hann lék á Danann stóra og rúllaði boltanum í autt markið. Arsenal var á leiðinni í úrslitaleikinn! Leikmenn töpuðu sér í gleðinni og tóku ekki eftir því að aðstoðardómari leiksins hafði lyft flagginu og dæmt rangstöðu. Það tók þónokkra stund að koma öllum í skilning um að markið hefði ekki staðið. United menn gátu fagnað...
Mínútu síðar þagnaði sá fögnuður. Roy Keane, fyrirliði United var alltof seinn í tæklingu sína á Marc Overmars og David Elleray sýndi Keane umsvifalaust seinna gula spjaldið. United manni færri og korter til loka venjulegs leiktíma. Eftir brottrekstur Keane var róðurinn erfiður og Arsenal liðið herjaði á vörn United sem varð sífellt þreyttari, það átti eftir að bera árangur.
Alex Ferguson hefur væntanlega verið með hugann við það hvað hann skyldi segja við sína menn fyrir framlenginguna þegar að Phil Neville tæklaði Ray Parlour innan teigs á 90. mínútu, hugurinn farinn og lappirnar örþreyttar - David Elleray benti á punktinn. Um 100% víti var að ræða og veröld Neville og stuðningsmanna United að hrynja. Markaskorari Arsenal í leiknum, Dennis Bergkamp, steig fram til að taka spyrnuna og gegn honum var Peter Schmeichel.
Síðasta varnarlínan gegn einum besta leikmanni í sögu Úrvalsdeildarinnar. Bergkamp setti boltann í kjörhæð fyrir Schmeichel sem veðjaði rétt og varði spyrnuna! Leikmenn United fögnuðu sem óðir væru og Beckham geystist í átt að markmanninum til að faðma hann. Schmeichel brást hinn brjálaðasti við og henti stórstjörnunni frá sér og skipaði honum að koma sér í stöðu, leikurinn væri ekki búinn. Framlengt var.
Í fyrri hluta framlengingar hélt Arsenal pressunni áfram á tíu örþreytta leikmenn Man Utd. Enn á ný varði Schmeichel hörkuskot frá Bergkamp og Daninn bjargar meistaralega á marklínu eftir kraðak inn í teig United. United liðið gat einungis treyst á heilladísirnar í vítaspyrnukeppni eða hvað...
Síðari hluti framlengingar hafði farið rólega af stað þegar Patrick Vieira gaf óskiljanlega þversendingu yfir á vinstri kantinn. Þar tók Ryan Giggs við boltanum við miðlínuna. Giggs hafði komið inn á sem varamaður á 62. mínútu og ekki átt góðan leik. Lee Dixon, hægri bakvörður Arsenal hafði, séð við honum til þessa en ekki í þetta skiptið.
Giggs tók á rás í átt að marki Arsenal. Hann lék á Vieira og sneri svo á Dixon. Dixon vildi ekki játa sig sigraðan, en Giggs fór fram hjá honum í annað sinn. Martin Keown kom þá askvaðandi og loks henti Tony Adams sér fyrir skotið en allt kom fyrir ekki - Ryan Giggs þrumaði boltanum upp í þaknetið. 2-1!
Allt ætlaði um koll að keyra. Giggs reif sig úr að ofan og stökk inn í þvögu blandaða af leikmönnum og stuðningsmönnum Manchester United. Sir Alex trúði vart sínum eigin augum og var ekki einn um það.
Eftir mark Giggs þá náði Arsenal liðið aldrei að ógna marki United af einhverju viti. United-liðið hafði fengið orkusprautu eftir undramark Walesverjans og þeir lifðu á henni út leikinn. Þeir voru komnir í bikarúrslit eftir magnaðan leik.
Wenger, stjóri Arsenal, tók tapinu vel í leikslok og sagði: „Það er erfitt að kyngja þessu. Kvöldið var ekki okkar og við vorum óheppnir. Þetta eru óhemju jöfn lið og í kvöld vann það heppnasta. Ég vil óska Manchester United til hamingju, þeir voru frábærir. Ég er sorgmæddur en United hafa sýnt að þeir eru magnað lið."
Alex Ferguson hafði þetta að segja eftir leikinn ótrúlega: „Ég tel að við höfum átt sigurinn skilið, við vorum betra liðið ef horft er yfir leikina tvo. Það var ekki hægt að setja út á brottrekstur Roy Keane og liðið spilaði í gegnum miklar kvalir til þess að ná í sigurinn."
Mark Ryan Giggs er af mörgum talið það glæsilegasta í sögu FA bikarsins og er óhætt að fullyrða að mikilvægi leiksins vegi þungt. Öll sund virtust lokuð fyrir Manchester United þegar Giggs dró þessa töfra upp úr hattinum. Það sem gerðist í kjölfarið er mörgum kunnugt. United tókst það sem engu öðru ensku liði hefur tekist að gera: Að vinna deildina, FA bikar og Meistaradeildina á sama tímabili. Að ná þrennunni.
Athugasemdir