Bikarmeistarar Breiðabliks og Íslandsmeistarar Stjörnunnar mætast í 8. umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld á Kópavogsvelli. Leikurinn hefst klukkan 19:15 en þetta eru liðin í 2. og 3. sæti deildarinnar.
Við heyrðum hljóðið í Guðrúni Arnardóttur varnarmanni Breiðabliks sem verður í eldlínunni í kvöld.
Við heyrðum hljóðið í Guðrúni Arnardóttur varnarmanni Breiðabliks sem verður í eldlínunni í kvöld.
Það má búast við hörkuleik. Það er alveg bókað. Leikir á milli Breiðabliks og Stjörnunnar eru alltaf hörku leikir, mikil barátta og ekkert gefið eftir," sagði Guðrún sem segir Blikaliðið ekki fara inní leikinn í kvöld sem einhvern úrslitaleik þrátt fyrir að mikilvægi leiksins sé mikið.
„Við förum kannski ekki í hann sem úrslitaleik en við vitum að hann er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur ef við ætlum að vera að berjast um eitthvað í sumar. Við stefnum á sigur í hverjum leik og það er ekkert öðruvísi með leikinn í dag."
Stjarnan hefur ekki unnið Breiðablik í Íslandsmóti frá árinu 2014. Þá hefur Breiðablik ekki tapað gegn Stjörnunni í síðustu níu leikjum í öllum keppnum.
„Þetta hafa alltaf verið ótrúlega spennandi og oft á tíðum mjög jafnir leikir. Ég held við getum ekkert sagt að einhver einn hlutur sé ástæðan enda skipta síðustu leikir engu máli fyrir leikinn í dag. Þetta er nýr leikur og við verðum bara að fókusa á hann."
Mikil óvissa ríkir um þátttöku Hörpu Þorsteinsdóttur leikmanns Stjörnunnar sem er að koma til baka eftir barnsburð. Guðrún segist lítið verið að spá í því hvort eða hvað Harpa spilar mikið í kvöld.
„Við fókusum bara á okkar leik og tökum á móti þeim sem mæta. Við erum tilbúnar í hvað sem er, því við vitum að sama hvað, þá þurfum við að mæta með hausinn í lagi og tilbúnar að berjast, djöflast og spila fótbolta allan leikinn," sagði Guðrún að lokum.
Leikurinn verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net og hefst leikurinn eins og fyrr segir klukkan 19:15.
Athugasemdir