Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 16. júní 2021 22:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Valur vann stórleikinn - Jafnt í Kaplakrika
Valsmenn eru komnir á toppinn.
Valsmenn eru komnir á toppinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Einar Karl skoraði gegn uppeldisfélagi sínu.
Einar Karl skoraði gegn uppeldisfélagi sínu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir tvo erfiða leiki eru Íslandsmeistarar Vals komnir aftur á sigurbraut í Pepsi Max-deildinni.

Valsmenn fengu Breiðablik í heimsókn í stórleik umferðarinnar. Blikarnir voru ferskari til að byrja með, en Valsmenn eru seigir og þeir tóku forystuna á 25. mínútu leiksins. Damir Muminovic skoraði þá sjálfsmark. Markið kom eftir hornspyrnu.

Blikar fengu mjög góð tækifæri til að jafna metin en það gerðu þeir ekki og var þeim refsað fyrir. „Almarr skallar boltann niður í teignum sem dettur fyrir fætur Pedersen sem tekur nokkrar snertingar í teignum og leggur boltann í netið með viðkomu í Antoni," skrifaði Sverrir Örn Einarsson í beinni textalýsingu þegar Patrick Pedersen gerði annað mark Vals undir lok fyrri hálfleiks.

Valsmenn refsuðu grimmilega í kvöld. Þeir bættu svo við þriðja markinu um miðbik seinni hálfleiks þrátt fyrir að gestirnir hefðu verið sterkari aðilinn á vellinum. Guðmundur Andri Tryggvason byrjaði sinn fyrsta leik í Pepsi Max-deildinni í sumar og hann þakkaði pent fyrir sig með marki.

Árni Vilhjálmsson minnkaði muninn úr vítaspyrnu á 77. mínútu en lengra komust þeir ekki og lokatölur 3-1 fyrir Valsmenn sem eru komnir aftur á topp deildarinnar. Víkingur á þó leik til góða og KA á tvo leiki til góða. Breiðablik er í fimmta sæti.

Jafnt í Kaplakrika
Í Hafnarfirði, nánar tiltekið í Kaplakrika, mættust tvö lið sem hafa valdið vonbrigðum í upphafi tímabils; FH og Stjarnan.

„GEGGJAÐ MARK, ALVEG HREINT GEGGJAÐ," skrifaði Matthías Freyr Matthíasson í beinni textalýsingu er FH komst yfir á 18. mínútu. Jónatan Ingi Jónsson skoraði þá eftir laglegt samspil við Ágúst Eðvald Hlynsson.

Tuttugu mínútum síðar jafnaði Einar Karl Ingvarsson gegn uppeldisfélagi sínu með flottu skoti rétt fyrir utan teig.

Markverðir beggja liða voru öflugir í seinni hálfleik og þurftu liðin að lokum að skiptast á jafnan hlut, lokatölur 1-1. FH er í sjötta sæti með 11 stig og Stjarnan er í níunda sæti með sjö stig.

Valur 3 - 1 Breiðablik
1-0 Damir Muminovic ('25 , sjálfsmark)
2-0 Patrick Pedersen ('42 )
3-0 Guðmundur Andri Tryggvason ('65 )
3-1 Árni Vilhjálmsson ('77 , víti)
Lestu nánar um leikinn

FH 1 - 1 Stjarnan
1-0 Jónatan Ingi Jónsson ('18 )
1-1 Einar Karl Ingvarsson ('38 )
Lestu nánar um leikinn

Önnur úrslit í kvöld:
Pepsi Max-deildin: Toppsætið í augsýn fyrir KA
Athugasemdir