Man Utd reynir við Gyökeres í þessum glugga - Trent færist nær Real Madrid - Arsenal leiðir kapphlaupið um Omar Marmoush
banner
   mið 17. maí 2023 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þá er hann að fá samning sem ég myndi aldrei í lífinu fá"
Jasmín Erla Ingadóttir.
Jasmín Erla Ingadóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Kristall Máni, bróðir Jasmínar.
Kristall Máni, bróðir Jasmínar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jasmín í leik með Stjörnunni.
Jasmín í leik með Stjörnunni.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Jasmín Erla Ingadóttir, sem var markadrottning Bestu deildarinnar í fyrra, var gestur í hlaðvarpsþættinum Tiltalið í síðustu viku þar sem hún fór um víðan völl.

Meðal annars ræddi hún um launamuninn í íslenskum fótbolta, í karla- og kvennaboltanum.

„Ég sé þetta mjög skýrt. Kristall litli bróðir minn er búinn að spila hérna og samningarnir sem hann er að fá miðað við mig... þegar hann kemur heim frá FC Kaupmannahöfn þá er hann að fá samning sem ég myndi aldrei í lífi mínu fá," sagði Jasmín en Kristall kom aftur heim árið 2020 og gekk í raðir Víkings eftir að hafa verið í unglingaakademíu FCK í Danmörku.

„Á meðan ég er búinn að spila hérna sem lykilmaður í fimm ár þá er hann bara lítill tittur sem er að koma úr akademíu. Honum er boðinn svaka samningur. Ég samgleðst honum auðvitað en maður pælir í því hvort þetta sé svona mikill munur."

Að þurfa ekki að hlaupa beint úr vinnunni yfir í leik
Jasmín var markadrottning í fyrra og spilaði frábærlega með Stjörnunni. Hún segir mikilvægt að hugsa vel um sig utan vallar því það muni borga sig innan vallar, en það getur stundum verið strembið þar sem hún er í fullri vinnu með fótboltanum og á lítið barn.

„Ég man þegar ég var á fyrsta árinu mínu í Stjörnunni og ég var að vinna. Ég segi við þjálfarann að ég væri að vinna til fimm og hann spyr mig hvort ég sé ekki á samningi. Ég segi þá: 'Ef ég væri á það góðum samningi, þá þyrfti ég ekki að vera að vinna svona mikið'. Málið er að við erum í fullri vinnu með þessu. Ég veit að fullt af strákum vinna með líka en margir sem eru í bestu liðunum þurfa ekkert að vera að því. Við þurfum að vinna með. Eins og núna er ég að vinna í vaktavinnu svo ég geti sinnt fótboltanum og verið með barninu mínu. Ég er að reyna að púsla þessu saman endalaust svo ég geti sinnt þessu eins vel og ég get."

„Kvennaboltinn mun bara verða betri ef þetta (launamálin) verða betri. Gæðin í leikmönnum og öllu. Að þurfa ekki að hlaupa beint úr vinnunni yfir í leik, það hlýtur að skipta máli," segir Jasmín.

Þetta er fáránlega pirrandi stundum
Kvennaboltinn og öll umgjörð í kringum hann, þar á meðal launamálin, er á uppleið í heiminum. Það er mun meiri peningur í karlaboltanum ennþá en kvennaboltinn er að vaxa og það er að koma inn meiri peningur í hann með auknum áhuga. Jasmín setur spurningamerki við að það sé svona mikill launamunur í fótboltanum á Íslandi.

„Ég pæli oft í því að það séu styrktaraðilar hjá félögum en hvernig skiptist peningurinn? Hvernig getur verið að strákarnir séu á svona dúndurlaunum miðað við okkur? Eru styrktaraðilarnir að biðja um að peningarnir fari bara í karlana? Ef ég væri í stjórninni hjá Stjörnunni og það væri einhver styrktaraðili að biðja bara um að styrkja karlana þá myndi ég bara sleppa því. Það á ekki að vera í boði," segir Jasmín.

„Þetta er fáránlega pirrandi stundum. Ég er að leggja nákvæmlega sama metnað og tíma í þetta, en ég fæ ekki í líkingu við það sem kjúllinn á bekknum þarna fær," segir markadrottningin en hún er ekkert á móti því að strákarnir fái vel borgað, alls ekki.

„Strákarnir mega alveg hafa það gott en megum við kannski komast með tærnar þar sem þið hafið hælana? Það væri ágætt, bara fín byrjun. Þó við séum ekki á sambærilegum launum í Stjörnunni þá er umgjörðin orðin mjög svipuð, sem við erum mjög þakklátar fyrir. Það gerir helling fyrir liðið. Það er hugsað vel um okkur."

Hægt er að hlusta á allan þáttinn hér fyrir neðan.
Tiltalið: Jasmín Erla Ingadóttir
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner