
Á dögunum tilkynnti Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari að Orri Steinn Óskarsson væri nýr fyrirliði íslenska landsliðsins. Fyrstu leikir Orra sem fyrirliði verða gegn Kósovó.
Orri ræddi við Fótbolta.net á hóteli Íslands á Spáni þar sem liðið býr sig undir komandi leiki í umspili Þjóðadeildarinnar.
Orri ræddi við Fótbolta.net á hóteli Íslands á Spáni þar sem liðið býr sig undir komandi leiki í umspili Þjóðadeildarinnar.
„Þetta er geggjuð tilfinning og mikið stolt. Það eru ekki allir leikmenn sem fá að upplifa þetta á sínum ferli. Ég er mjög stoltur og hlakka til að leiða strákana áfram," segir Orri, sem bjóst ekki við því að vera gerður að fyrirliða.
„Maður var mjög spenntur þegar maður frétti af því að Arnar væri að taka við. Svo fékk maður símtal eins og maður bjóst við frá nýjum þjálfara. Þegar hann tilkynnti mér þetta var ég ekki alveg að trúa honum fyrst."
Frábært fyrir mig að hafa Aron innanborðs
Aron Einar Gunnarsson er í hópnum þrátt fyrir að fyrirliðabandið sé nú komið á nýjan aðila. Eins og talað hefur verið um þá þarf Aron ekki band til að vera leiðtogi í hópnum og Orri segir gott að geta leitað ráða hjá honum.
„Aron er auðvitað búinn að vera mikil fyrirmynd okkar frá því að við vorum ungir drengir. Það er frábært fyrir mig að hafa hann innanborðs, hann getur hjálpað mér og það væri verra ef hann væri ekki hérna. Hann veit hvað þetta snýst allt um og getur hjálpað mér í þessu nýja hlutverki."
Mikið sjálfstraust í mönnum
Skiljanlega er sjálfstraust orð sem hægt er að nota um íslenska landsliðið í þessum glugga. Margir af leikmönnum liðsins eru á flottu skriði með sínum félagsliðum og Orri segir það hafa sést á æfingum.
„Maður finnur það á æfingum að það er mikið sjálfstraust í mönnum. Menn eru gíraðir og spenntir fyrir nýjum áherslum og nýjum áherslum og hlutum. Það gefur manni góðan grunn til að byggja á að finna það á æfingum," segir Orri og viðurkennir að það sé góð tilfinning að spila með funheita leikmenn í kringum sig.
„Það gerir starf strækersins aðeins auðveldara. Þegar maður kemur í landsliðsglugga þá eru alltaf frábærir leikmenn kringum mann. Það eyðileggur ekki að þekkja þá mjög vel. Æfingarnar hafa verið mjög flottar hingað til. Gæðin eru geggjuð og æfingasvæðið mjög gott."
Fyrri leikur Kósovó og Íslands verður í Pristina á fimmtudagskvöld, sá seinni í Murcia á sunnudag. Sigurliðið í einvíginu verður í B-deild Þjóðadeildarinnar.
„Mjög spennandi leikir. Það er mikilvægt að frammistaðan sé góð og með frammistöðunni koma yfirleitt góðir sigrar. Okkur finnst mikilvægt núna að bæta sig sem lið og auðvitað ætlum við að vinna."
Hefði átt að skora gegn Manchester United
Orri er nýkominn úr spennandi einvígi með Real Sociedad gegn Manchester United í Evrópudeildinni. Orri fékk mjög gott færi til að skora í fyrri leiknum.
„Við vorum töluvert betri í fyrri leiknum. Ég hefði átt að skora, ég viðurkenni það. Það var smá svekkjandi. Við vorum óheppnir í seinni leiknum að missa mann af velli og það eyðilagði aðeins síðustu 30 mínúturnar þegar við vildum koma inn jöfnunarmarki. Við vildum komast alla leið í úrslit en við horfum samt stoltir til baka á Evrópukeppnina," segir Orri sem er að finna sig betur og betur með spænska liðinu.
„Aðlögunin tekur alltaf smá tíma, sérstaklega þegar þetta er svona sterk deild. Ég er að finna mig mjög vel og að kynnast liðinu betur. Mér líður vel inni á vellinum og ég held að það sé bara tímaspursmál hvenær hlutirnir byrja að tikka."
Að verða faðir
Orri, sem er tvítugur, er ekki bara að taka nýja ábyrgð með landsliðinu heldur einnig í lífinu utan vallar þar sem hann er að verða faðir.
„Maður er með ólétta konu svo maður þarf að hugsa um það. Það þarf að hugsa um það líka. Maður er að taka fulla ábyrgð þessa dagana og það er frábært. Það er gott að geta kúplað sig aðeins út og hugsa stundum um eitthvað annað en fótbolta," segir Orri en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir