Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   fim 18. júlí 2019 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gulli Gull: Getur ekkert verið að grenja þetta í marga daga
Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd tekin fyrir fyrri leik Vaduz og Blika á Kópavogsvelli.
Mynd tekin fyrir fyrri leik Vaduz og Blika á Kópavogsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik er í öðru sæti Pepsi Max-deildarinnar og í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.
Breiðablik er í öðru sæti Pepsi Max-deildarinnar og í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er svekkjandi. Við töldum okkur eiga möguleika og við áttum það svo sannarlega," sagði Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, eftir 2-0 gegn sínum gömlu félögum í Vaduz í forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Sjá einnig:
Evrópudeildin: Blikar féllu úr leik í Liechtenstein

Eftir markalausan fyrri leik á Kópavogsvelli tapaði Breiðablik 2-0 í Liechtenstein í kvöld.

Vaduz er frá Liechtenstein, en leikur í B-deildinni í Sviss. Liðið komst í Evrópukeppni þar sem það vann bikarkeppnina í Liechtenstein.

„Við erum mjög svekktir og súrir yfir þessu, en við getum ekkert dvalið við það."

„Að gera 0-0 heima er allt í lagi. Það er fínt að halda hreinu heima. Eitt mark úti og þá þyrftu þeir að gera tvö. Við fengum 2-3 færi til að komast í 1-0, en náum ekki að skora. Þeir komast í 1-0 og þá erum við að elta, þá kemur svolítið panikk. Ég vil ekki segja að þetta hafi verið óþroskuð frammistaða, við vorum að spila við gott lið sem gerði vel úr sínu," sagði Gunnleifur við Fótbolta.net.

„Lærir maður ekki af öllu? Sagði einhver snillingurinn ekki einhvern tímann, 'annað hvort vinnurðu eða lærirðu'. Það er leiðinlegt að vera alltaf með sömu tuggurnar, en það er ekkert annað í boði. Þú getur ekkert verið að grenja þetta í marga daga."

„Það er búið að gefa leyfi á fýlu í kvöld en svo förum við að hugsa um næsta leik. Við viðurkennum það allir sem einn í félaginu að þetta eru vonbrigði og ógeðslega leiðinlegt."

Undirbjuggum okkur mjög vel
Vaduz er eins og áður segir lið frá Liechtenstein sem leikur í B-deildinni í Sviss. Á síðustu leiktíð hafnaði Vaduz í sjötta sæti B-deildarinnar.

Voru þeir sterkari en Blikarnir bjuggust við?

„Við undirbjuggum okkur mjög vel og vissum hvað við vorum að fara út í. Þetta er gott lið og vel spilandi. Þeir eru með frábæran sóknarmann, Coulibaly. Þeir eru atvinummenn í þessu."

„Við ætluðum ekki að vera fyrsta liðið frá Íslandi til að vanmeta andstæðing í Evrópukeppni. Það kemur ekki til greina. Við gerðum eins vel og við gátum, en því miður var það ekki nóg."

Ætla sér bæði að vinna deild og bikar
Heima fyrir hefur Breiðablik tapað tveimur leikjum í röð í Pepsi Max-deildinni. Liðið er í öðru sæti Pepsi Max-deildarinnar, sjö stigum á eftir KR. Í undanúrslitum bikarsins mæta Blikarnir liði Víkings Reykjavíkur.

„Andinn er frábær í hópnum, það er mikil samstaða í liðinu og félaginu. Við vitum hvar við erum staddir, við erum í öðru sæti í deildinni og í undanúrslitum í bikar. Það væri mjög skrýtið ef hópurinn myndi slitna núna í sundur."

„Það er bara næsti leikur. Við þurfum að koma vel klárir í næsta leik á móti Grindavík."

„Við viljum vinna báða titlana. Við sögðum það fyrir tímabil að við ætluðum að gera betur en í fyrra og við lentum í öðru sæti í báðum keppnum í fyrra. Það er hálft tímabil eftir í deildinni og við erum í undanúrslitum í bikar. Núna þurfum við að stíga á bensíngjöfina og ná okkar takti aftur."

KR er með sjö stiga forystu á toppnum eins og áður segir. Hefur Gulli áhyggjur af því að KR-ingar séu að stinga af?

„Þetta er frekar í þeirra höndum, en KR er ekki að fara að vinna restina af mótinu. Þeir eiga eftir að koma til okkar og spila við fullt af góðum liðum. Við verðum bara að skila okkar og sjá hvort það dugi," sagði Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður og fyrirliði Breiðabliks.


Athugasemdir
banner
banner
banner