Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 18. október 2019 20:30
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Fótbolti og pólitík
Pistillinn birtist fyrst á romur.is
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Þann 14. nóvember mætast Ísland og Tyrkland í mikilvægum leik í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu og fer leikurinn fram í Istanbúl. Talsverð óvissa ríkir fyrir leikinn þar sem niðurstöðu er að vænta úr rannsókn UEFA á hegðun tyrkneskra landsliðsmanna í síðustu tveimur leikum liðsins þar sem leikmenn hafa fagnað marki að hermannasið og þannig lýst yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir Tyrklands í Sýrlandi sem meðal annars beinast gegn Kúrdum.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra sagði í síðustu viku að stjórnmál og íþróttir heyra ekki saman. „Mér finnst að við eigum ekki að blanda þessu tvennu saman. Ég er á því að íþróttir geti frekar leitt fólk saman og frekar sé hægt að eyða ágreiningi í gegnum listir, íþróttir og annað slíkt. Og mér hefur alltaf verið mjög illa við það að blanda saman íþróttum og stjórnmálum,“ var haft eftir Lilju í fréttum Stöðvar 2.

Það er auðvelt að vera sammála þessari skoðun Lilju en vandamálið er bara að fótbolti og pólitík eru og hafa alltaf verið samofin nánum böndum. Þegar stjórnmálin og fótboltinn mætast fáum við að sjá knattspyrnuna í sínum fallegasta en líka í sínum ljótasta búningi.

Einhverjir hafa kallað eftir því að Íslendingar sniðgangi leikinn gegn Tyrkjum. Formaður KSÍ hefur sagt að það standi ekki til. Þá má einnig velta upp þeim möguleika að Íslendingar fagni marki sínu í Istanbúl í nóvember með því að lýsa yfir stuðningi við Kúrda með einum eða öðrum hætti. Það er þó áhættuatriði sem ég held að landsliðmennirnir séu ekkert sérstaklega spenntir fyrir.

Vandamálið með alþjóðlegu knattspyrnusamböndin er að þau hafa sjálf hvorki áhuga á að beita þjóðum viðurlögum sem blanda saman stjórnmálum og knattspyrnunni né vernda þá einstaklinga sem þarf að vernda gegn öfgakenndum pólitískum ofsóknum á tímum þegar þjóðernishyggja teygir anga sína inn á svið knattspyrnunnar sem aldrei fyrr.

Ekki nýtt vandamál
Þetta er nefnilega ekkert nýtt vandamál. Árið 1978 var Heimsmeistaramót karla í knattspyrnu haldið í Argentínu sem þá var stjórnað af forseta sem komst til valda með valdaráni tveimur árum áður. Johan Cruyff, sennilega besti knattspyrnumaður heims á þessum tíma sniðgekk keppnina og gat því ekki aðstoðað landsmenn sína sem komust í úrslitaleikinn þar sem þeir þurftu að lúta í lægra haldi gegn einmitt heimamönnum Argentínu.

FIFA og jafnvel UEFA hafa enn ekki lært af reynslunni og hika ekki við að halda knattspyrnumót á stöðum þar sem mannréttindi eru fótum troðin.

Í vor fór fram úrslitaleikur UEFA Europa League. Leikurinn fór fram í Baku samkvæmt ákvörðun UEFA. Einn leikmaður Arsenal fékk ekki að spila leikinn af pólitískum ástæðum. Það eina sem hann hafði sér til sakar unnið var að vera frá Armeníu en eins og Vera Illugadóttir hefur kennt okkur Íslendingum eiga Aserar og Armenar í deilu um Nagarno-Karabak svæðið og þótt tæknilega ríki vopnahlé hefur það ekki orðið til þess að stöðva blóðsúthellingar.

Pólitík hefur í áratugi verið stærsti drifkrafturinn á breytingum á knattspyrnuumhverfinu í heiminum. Uppgangur Spánar og yfirburðir spænskra félagsliða í Evrópu frá 2005 má rekja beinlínis til breytinga á spænskum skattalögum. Allt í einu gátu spænsk lið boðið bestu leikmönnum heims betri samninga en þeir fengu annars staðar, án þess þó að þurfa að borga meira en önnur lið vegna þess að leikmennirnir nutu ákveðins skattfrelsis, Beckham-skatturinn svokallaði.

Forsætisráðherra Ítalíu notaði ítalskt félagslið til að afla sér vinsælda í stjórnmálum á Ítalíu. Upprisa Manchester City og PSG má rekja beinlínis til pólitískra ákvarðana á Arabíuskaganum þar sem Arabískar konungsfjölskyldur sáu að knattspyrnan var góð leið til þess að reyna að hvítþvo gruggugt orðspor sitt í mannréttindamálum. Fótboltinn er fullkomin leið til þess, því meira að segja ógeðfelldustu fyrirtæki og ríkisstjórnir geta síðan alltaf falið sig á bakvið möntruna um að fótbolti og stjórnmál heyri ekki saman. Tvískinnungurinn kom best í ljós á blaðamannafundi Pep Guardiola í fyrra. Á fundinum er hann spurður út í greiðslur hans frá fyrirtæki konungsfjölskyldunnar í Abu Dhabi sem á Manchester City. Hann brást hinn versti við og sagðist vera mættur til að ræða um knattspyrnu og að ekki væri sanngjarnt að demba á hann pólitískum spurningum.

Annar tónn var í Guardiola skömmu síðar á blaðamannafundi fyrir leik síðar á tímabilinu. Hann hóf þá blaðamannafundinn á eldræðu um ástandið í hans heimalandi Spáni og Katalóníu. Síðar var hann af enska knattspyrnusambandinu sektaður fyrir að bera á hliðarlínunni barmmerki til stuðnings sjálfstæðisbaráttu Katalóníu og hinna fangelsuðu leiðtoga svæðisins. Hinn ópólitíski Guardiola fannst allt í einu þræleðlilegt að nýta blaðamannafundinn til að básúna skoðunum sínum á pólitísku ástandi víðsfjarri Englandi.

Mælikvarði á lýðræði
Það verður aldrei hægt að útrýma pólitík alveg úr knattspyrnunni. Knattspyrnan er fallegust þegar hún endurspeglar samfélagið hverju sinni en líka ljótust. En knattspyrnusambandið og fjölmiðlar geta veitt meira aðhald og látið þá sem nota knattspyrnuna sem andlýðræðislegt tæki, til dæmis með því að fegra ástandið í heimalandinu eða með því að aðilar innan knattspyrnunnar með hægri hendinni segjast vera ópólitískir en með vinstri hendinni hika ekki við að nota knattspyrnusviðið til að básúna pólitískum skoðunum.

UEFA rannsakar nú hermannakveðju Tyrkja og veltir fyrir sér viðurlögum. Spurningin sem sambandið verður að spyrja sig og mælikvarðinn sem gott er að nota er þessi: Ef Íslendingar myndu nýta rétt sinn til að flagga pólitískum skoðunum í Tyrklandi, til dæmis með því að sýna Kúrdum samúð, er þá hægt að tryggja öryggi þeirra? Ef svarið er nei, þá á leikurinn ekki að fara fram í Tyrklandi.
Athugasemdir
banner
banner