Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   sun 19. febrúar 2017 09:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Rúmlega sex ár af bulli
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Kjúklingur sem aðdáandi Blackburn hleypti inn á völlinn með skilaboð um að eigendurnir ættu að víkja.
Kjúklingur sem aðdáandi Blackburn hleypti inn á völlinn með skilaboð um að eigendurnir ættu að víkja.
Mynd: Getty Images
Steve Kean fékk að finna fyrir því en eigendurnir voru (og eru) stærra vandamál.
Steve Kean fékk að finna fyrir því en eigendurnir voru (og eru) stærra vandamál.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Búið til í Blackburn - Eyðilagt á Indlandi.
Búið til í Blackburn - Eyðilagt á Indlandi.
Mynd: Getty Images
Í desember 2011 fór ég ásamt fimm vinum mínum (ótrúlega vandaður félagsskapur) til Blackburn á leik Blackburn Rovers og West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni. Ég man ómögulega hver okkar átti þessa fáránlegu hugmynd en ferðin var allavega eftirminnileg. Blackburn er ekki nafli alheimsins og miðarnir á völlinn nánast gefnir.

Þegar þessi ferð var farin var allt í bulli hjá Blackburn. Rúmt ár var síðan indverskir kjúklingabændur höfðu eignast félagið og lofað öllu fögru. Þeir sögðust ætla að kaupa Ronaldinho og David Beckham. Blackburn átti að rísa í hæstu hæðir.

Öll loforðin voru svikin.

Stemningin á Ewood Park, heimavelli Blackburn, var afskaplega sérstök þennan desemberdag. Knattspyrnustjóri félagsins var Steve Kean sem var vægast sagt svaðalega óvinsæll. Hver einn og einasti stuðningsmaður vildi hann burt og hann þurfti ásamt fjölskyldu sinni á lífverði að halda til að komast í gegnum daglegt líf.

Við ræddum við strangheiðarlega stuðningsmenn Blackburn og Maggi festi skoðanir þeirra á filmu í götuspjalli.

Á vellinum sjálfum var reyndar sungið um að Steve Kean væri maðurinn og ætti að verða stjóri Blackburn sem lengst. Vondu fréttirnar fyrir hann að það voru stuðningsmenn andstæðingana í West Brom sem sungu. Hjá heimamönnum vildu allir Kean og indversku kjúklingabændurna burt.

Síðan þessi ferð var farin eru liðin rúmlega fimm ár og staðan hjá Blackburn er þessi:

- Indversku kjúklingabændurnir eiga félagið enn.
- Eigendunum er enn harðlega mótmælt.
- Steve Kean hefur ekki starfað við þjálfun síðan 2014 en þá var hann landsliðsþjálfari eyjunnar Brúnei.
- Blackburn er í fallsæti í ensku B-deildinni. C-deildin er handan við hornið.


Já staðan hefur 0 batnað, bara versnað. Blackburn er að fara að mæta Manchester United í bikarleik í dag en spennan meðal stuðningsmanna er við frostmark. Leikurinn er nánast þýðingarlaus í þeirra augum og þeir myndu allan daginn skipta út sigri á United fyrir þrjú stig í deildinni.

Áhuginn fer minnkandi. 38% af Ewood Park er setinn að meðaltali á þessu tímabili. „Andrúmsloftið er eins og það var þegar Steve Kean var stjórinn," segir Mark Fish, stuðningsmaður Blackburn sem hefur skipulagt mótmæli gegn indversku eigendunum.

Indverjarnir halda áfram að tala um að stefnan sé sett á úrvalsdeildina í þau örfáu skipti sem þeir tjá sig opinberlega. Ekkert bendir þó til þess. Bestu leikmennirnir eru seldir og lítið sem ekkert keypt í staðinn.

Mótmælin halda áfram. Hugur minn er hjá þeim tveimur á Íslandi sem halda með þessu liði (lesist Valur Gunnarsson og Henrik Bödker).

Stiklað á "stóru" í eigendatíð Indverjana (Heimild: Guardian)

- Nóvember 2010: Kjúklingabændurnir frá Indlandi, Venky's, borga 23 milljónir punda fyrir Blackburn. Lofa því að halda Stóra Sam Allardyce við stjórnvölinn og segjast ætla að gera félagið að þekktu vörumerki á heimsvísu, einu best rekna félagi ensku úrvalsdeildarinnar.

- Desember 2010: Allardyce er rekinn. Eigendurnir segja að stuðningsmenn eigi að treysta þeim. Ákvörðunin sé tekin með hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Steve Kean er ráðinn tímabundið.

- Janúar 2011: Kean skrifar undir langtímasamning. Eigendurnir segja að hann hafi góða framtíðarsýn og hugmyndir.

- Júlí 2011: Kjúklingabændurnir gefa út auglýsingu með leikmönnum Blackburn í aðalhlutverki. Kean segir að stefnan sé sett á að enda í efri helmingnum.

- September 2012: Blackburn er fallið og er nú í Championship. Kean lætur af störfum. Indverjarnir ráða Henning Berg og skrifar hann undir þriggja ára samning.

- Desember 2012: Berg er rekinn eftir 57 daga í starfi eftir að hafa gengið í gegnum fimm tapleiki í sex leikjum.

- Janúar 2013: Michael Appleton er ráðinn. Þriðji knattspyrnustjóri tímabilsins.

- Mars 2013: Appleton er rekinn eftir 67 daga í starfi. Erick Black, fyrrum aðstoðarþjálfari hjá félaginu, segir í viðtali að indversku eigendurnir ættu frekar að gefa stjórum 5-10 leikja samninga. „Þetta er algjört bull," segir Black.

- Maí 2013: Gary Bowyer tekur við sem knattspyrnustjóri á 12 mánaða rúllandi samningi.

- Nóvember 2015: Bowyer er rekinn eftir einn sigur í sex leikja hrinu. Paul Lambert verður sjöundi fastráðni stjórinn á sjö árum.

- Apríl 2016: Lambert tilkynnir að hann muni láta af störfum eftir tímabilið. Rovers er í 17. sæti og skuldirnar orðnar 102,4 milljónir punda.

- Juní 2016: Owen Coyle tekur við. 2.916 áhorfendur mæta á leik gegn Crewe. Versta mæting hjá félaginu í 30 ár. Átta mánuðum síðar situr liðið í 23. sæti deildarinnar.

Þess má geta að þrívegis hefur Blackburn orðið Englandsmeistari. Síðast 1995.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner