fös 19. ágúst 2022 12:31
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þéttsetið í salnum en enginn hiti - „Myndum gera meira ógagn en gagn"
Davíð Þór Viðarsson.
Davíð Þór Viðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Pétur Viðarsson.
Pétur Viðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari FH.
Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Úr síðasta leik FH gegn ÍBV.
Úr síðasta leik FH gegn ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í gær fór fram svokallað „endurreisnarkvöld" fram hjá FH í Kaplakrika. Stuðningsmenn FH komu saman í veislusal Sjónarhóls í Kaplakrika og fóru yfir málin.

Tímabilið hjá karlaliði FH hefur vægast sagt verið vonbrigði en liðið er einu stigi frá fallsæti eftir 17 leiki.

Eiður Smári Guðjohnsen og Sigurvin Ólafsson, þjálfarar FH, mættu og fóru yfir stöðuna ásamt Davíð Þór Viðarssyni, yfirmanni fótboltamála hjá félaginu.

„Það var mjög vel mætt. Þetta var skipulagt með mjög stuttum fyrirvara. Ég er ótrúlega ánægður að það hafi svona margir mætt. Við fylltum Sjónarhól, veislusalinn hjá okkur," segir Davíð í samtali við Fótbolta.net.

„Svo gekk þetta mjög vel. Okkar stuðningsfólk fékk tækifæri til að spyrja spurninga og segja sína skoðun á málunum. Við áttum mjög gott samtal við fólkið okkar. Við erum mjög ánægðir og þá sérstaklega hvað það mættu margir. Þarna er styrkur félagsins, okkar fólk eru ótrúlega miklir FH-ingar og er annt um þetta félag. Við viljum öll hjálpast við að komast á betri stað karlamegin en við erum núna," segir Davíð.

Var hiti í fólkinu? „Nei, það var ekkert þannig. Fólk er óánægt með stöðuna en þetta fór allt mjög vel fram. Spurningarnar áttu allar rétt á sér og þetta var ótrúlega vel heppnað."

Goðsagnir á æfingu?
Fótbolti.net hefur fengið það sent að goðsagnir hjá FH séu að mæta á æfingasvæðið og láta til sín taka. Hafa Atli Guðnason, Atli Viðar Björnsson, Davíð sjálfur og Pétur Viðarsson verið nefndir í því samhengi.

Davíð segir að þessir menn láti vissulega stundum sjá sig í Kaplakrika, en það hafi ekki verið skipulagt að fá þá alla á æfingu og þeir hafi alls ekki verið með á æfingunni.

„Ég er í kringum flestar æfingar, það fylgir starfinu hjá mér. Þessir þrír sem þú nefndir eru miklir FH-ingar. Atlarnir eiga börn í félaginu og Pétur lætur oft sjá sig upp í Kaplakrika. Það var ekki hóað í þá og þeir beðnir um að mæta á æfingu, en þeir eru mjög miklir FH-ingar og vilja reyna að gera það sem þeir geta til að hjálpast að við að komast af stað aftur."

„Það var ekkert skipulagt, þeir voru ekkert með á æfingu eða neitt svoleiðis. Það er sama með mig og kannski Atlana, við myndum gera meira ógagn en gagn inn á æfingu," sagði Davíð léttur.

Atli Viðar var í Stúkunni á Stöð 2 Sport á dögunum þar sem hann talaði um að FH ætti að hringja í Pétur Viðars og fá hann aftur á æfingar til þess að hrista aðeins upp í hlutunum.

„Það er massíft björgunarstarf framundan í tvo mánuði, að bjarga félaginu frá falli. Partur af því er að hringja í Pétur Viðarsson. Pétur hefur þá eiginleika sem vantar í FH í dag; hann er með stolt, mun koma inn með liðsheild og sýna að honum er ekki sama. Það er engin framtíðarlausn í því að hringja í Pétur en verkefnið núna er bara að bjarga félaginu frá falli," sagði Atli. „Pétur þarf ekki endilega að spila, hann þarf að mæta á æfingar og hrista upp í hlutunum."

Davíð var spurður út í þetta, hvort það hafi eitthvað verið skoðað.

„Pétur er nýhættur og er alltaf í formi. Þetta er pæling hjá Atla Viðari, en ekkert sem hefur komið upp hjá okkur. Við höfum 100 prósent trú á þeim mannskap sem við erum með. Ef það er einhver gamall leikmaður FH sem er búinn að leggja skóna á hilluna og gæti komið inn og gert gagn á æfingum, þá er það örugglega Pétur akkúrat núna," sagði Davíð um það.

Vongóður fyrir framhaldið
Þetta er ekki búið að vera gott tímabil fyrir FH en Davíð er vongóður fyrir framhaldið.

„Það eru tíu leikir eftir í þessu Íslandsmóti. Þetta er krefjandi staða sem við erum í. Það var gaman að sjá allt þetta fólk í gær, alla þessa mætingu og sjá huginn í fólkinu í kringum þetta. Við þurfum að koma okkur út úr þessu saman og við þurfum öll að hjálpast að við það," segir hann.

„Ég hef mikla trú á þessu þjálfarateymi og mjög mikla trú á þessum leikmannahóp. Ég hef alveg svakalega mikla trú á stuðningsfólkinu okkar. Ég er handviss um að við vinnum okkur út úr þessu saman. Við ætlum að líta til baka eftir tímabil og vera stolt af því að hafa stigið upp á mikilvægu augnabliki."

Sjá einnig:
Eiður Smári: Sumir sem við vorum með í huga var bara ekki hægt að fá
Vandræði FH: Eitt sinn stórveldi en núna í baráttu fyrir lífi sínu
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner