Janúartilboð frá Liverpool í Kerkez og Zubimendi - Forest vill Ferguson - Man Utd hefur áhuga á Raum og Yildiz
   mán 20. apríl 2020 18:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Bjarki valdi fótbolta 14 ára - „Pabbi fékk engu ráðið um það"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarki Sigurðsson (2006)
Bjarki Sigurðsson (2006)
Mynd: Jón Örvar Arason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarki Steinn Bjarkason hefur undanfarið tvö sumur leikið með ÍA en þar áður lék hann eitt tímabil með. Aftureldingu. Bjarki, sem verður tvítugur í maí, lék tuttugu leiki með Skagaliðinu á síðustu leiktíð og endaði liðið í 10. sæti deildarinnar.

Bjarki var valinn besti leikmaður 4. umferðar hér á Fótbolti.net og sagði þar frá ástæðunni fyrir félagaskiptunum í ÍA, kom inn á atvinnumanna drauminn og sagðist hafa meira vit á fótbolta heldur en pabbi sinn, Bjarki Sigurðsson sem er mikil handboltakempa og var meðal annars valinn í heimsliðið á HM 1992 í Svíþjóð. Bjarki Steinn skoraði tvö mörk í 4. umferð þegar ÍA vann 2-0 sigur á FH.

Sjá einnig:
Bestur í 4. umferð: Veit meira um fótbolta en handboltakempan

Valdi fótboltann 14 ára
Fótbolti.net hafði samband við Bjarka í dag og vildi fræðast meira um valið á íþróttagrein þegar Bjarki var yngri. Hjálpaði að fá íþróttauppeldi og kom aldrei til greina að velja handboltann?

„Að sjálfsögðu hjálpar það alltaf eitthvað, ég er alinn upp í íþróttafjölskyldu og fékk því strax áhuga á að stunda íþróttir ungur að aldri," sagði Bjarki Steinn við Fótbolta.net.

„Ég æfði bæði handbolta og fótbolta til fjórtán ára aldurs en þá tók ég þá ákvörðun að taka fótboltann fram yfir því ég var einfaldlega betri í þeirri íþrótt og þar af leiðandi fannst mér hann skemmtilegri. Pabbi fékk engu ráðið um það."

Furðulegt tímabil en þó ásættanlegt
ÍA byrjaði gífurlega vel á síðasta tímabili en svo fjaraði undan genginu og fáir sigrar unnust eftir fyrstu sex umferðirnar. Niðurstaðan tíunda sæti hjá nýliðunum. Bjarki lék tuttugu leiki í deildinni og skoraði þrjú mörk. Hvernig lítur hann á tímabilið þegar horft er til baka og hvernig fannst honum eigin spilamennska?

„Tímabilið var náttúrulega mjög furðulegt, við byrjuðum mjög vel eins og frægt er og ég sjálfur að spila góðan fótbolta en svo fór að halla undan fæti. Vinnum ekki marga leiki eftir þessa byrjun og okkur gengur þannig séð frekar illa, sérstaklega miðað við byrjunina."

„Í heild sinni var tímabilið hins vegar ásættanlegt þar sem við vorum nýliðar í deildinni og náðum okkar markmiði með að halda okkur uppi. Ég sjálfur meiðist í 6. umferð og eftir það tók það mig langan tíma að komast aftur í byrjunarliðið sem voru mikil vonbrigði fyrir mig, en náði þó að sýna eitthvað af því sem ég get undir lok móts."


Örebro hefur áhuga
Bjarki Steinn hefur farið til þriggja félaga í Skandínavíu í vetur á reynslu. Start í Noregi ásamt Norrköping og Örebro í Svíþjóð. Það eru ekki hans fyrstu reynsluferðir því hann fór til Hammarby árið 2016. Þjálfarar Örbero hrifust af Bjarka Steini sagði Sigurður Þór Sigursteinsson, þáverandi framkvæmdastjóri ÍA, við Fótbolta.net í febrúar.

Hvernig voru þessar ferðir í vetur og voru þær öðruvísi en Hammarby 2016?

„Þessar ferðir í vetur til Svíþjóðar og svo Start í Noregi voru allt öðruvísi í samanburði við Hammarby ferðina árið 2016 þar sem ég æfði núna með meistaraflokki og meiri alvara í reynslunni."

Er Bjarki nær því í dag að upplifa drauminn sem atvinnumaður heldur en fyrir tímabilið 2019?

„Ég myndi segja að ég væri nær því núna heldur en í fyrra að komast út þar sem ég veit af áhuga frá liðum og þá sérstaklega Örebro en þeir voru ánægðir með mig og hafa mikinn áhuga."

„Þessar ferðir hafa verið mjög lærdómsríkar og ég hef kynnst því örlítið hvernig atvinnumennskan virkar. Í augnablikinu er ég hins vegar einungis að hugsa um að standa mig vel í sumar með mínu liði en stefnan er að sjálfsögðu að komast í atvinnumennskuna."


Vill taka skref fram á við
Svar Bjarka Steins hér að ofan leiðir okkur beint í lokaspurninguna. Hvert er hans markmið fyrir komandi tímabil?

„Ég vil taka skref fram á við og vera fastamaður i byrjunarliðinu. Ég veit að ég get skorað og búið til mörk og ég vil gera sem mest af því til að hjálpa mér og liðinu að ná góðum árangri í sumar," sagði Bjarki Steinn að lokum.

Meira um Bjarka Stein og föður hans:
Hin hliðin - Bjarki Steinn Bjarkason (ÍA)
Viðtal við Bjarka Sig sem spilar í VISA-bikarnum (2006)
Bjarki Sigurðsson í heimsliðinu (mbl.is 1995)
Athugasemdir
banner
banner
banner